Árið í ár verður fjölmennasta ár í sögu landsins í utanlandsferðum Íslendinga, hvort sem litið er á hausa eða hlutfall af mannfjölda. Á fyrstu tíu mánuðum ársins voru brottfarir Íslendinga um Keflavíkurflugvöll þegar komnar upp í 450 þúsund manns samkvæmt tölum Ferðamálastofu Íslands.
Samkvæmt nýrri farþegaspá Isavia er reiknað með að rúmlega 74 þúsund Íslendingar bætist við á síðustu tveimur mánuðum ársins. Sé það tekið með í reikninginn fara brottfarir Íslendinga um KEF upp í 524 þúsund á árinu í heild, sem er metfjöldi frá upphafi. Jafngildir þetta 16,4% aukningu á milli ára, eða sem nemur tæplega 74 þúsund brottförum.
Greint er frá þessu í Morgunkorni Greiningardeildar Íslandsbanka. Þar er bent á að í þessum tölum spilar að sjálfsögðu inn í það mikla aðdráttarafl sem EM í Frakklandi hafði á landann í sumar, en samkvæmt útreikningum Íslandsbanka virðist sem metið hefði verið slegið þrátt fyrir að þeirra áhrifa hefði ekki gætt.
Samkvæmt farþegaspá Isavia mun brottförum Íslendinga um Keflavíkurflugvöl fjölga um 7,4% á milli ára á næsta ári og verða tæplega 563 þúsund talsins. Að mati deildarinnar er nokkuð ljóst að metið í ár verði slegið strax á næsta ári ef sú spá rætist.
Þessi aukning helst í hendur við aðrar tölur er varða neyslu landans sem virðist vera á ágætis siglingu um þessar mundir. Sú þróun helst svo aftur í hendur við hagfellda þróun veigamikla þátta sem varða hag heimilanna, eins og kaupmátt, eignastöðu og atvinnuástand.
„Sér í lagi hefur gengi krónunnar án efa spilað stóru rullu í aukinni ferðagleði, en hún hefur styrkst nánast linnulaust undanfarin misseri og þar með aukið kaupmátt Íslendinga í útlöndum. Í þessu samhengi má einnig nefna stóraukið flugframboð til og frá landinu, fjölgun áfangastaða og síðast en ekki síst að flugmiðinn til útlanda hefur sjaldan verið ódýrari en um þessar mundir,“ segir í Morgunkorni deildarinnar.