Hagnaður Brúneggja ehf. á síðasta ári nam 41,8 milljónum króna. Fyrirtækið er í eigu bræðranna Björns og Kristins Gylfa Jónssona en þeir högnuðust báðir um tæpar 100 milljónir króna á síðasta ári.
Í lok síðasta árs námu eignir félagsins 395,6 milljónum króna og bókfært eigið fé nam 122,6 milljónum.
Fjallað var um eggjaframleiðslu Brúneggja í Kastljósi í gærkvöldi. Þar kom fram að fyrirtækið hefði brugðist seint og illa við athugasemdum Matvælastofnunar um að bæta aðbúnað hænsna fyrirtækisins. Í mörg ár gerði Matvælastofnun sömu athugasemdir við aðbúnað dýranna, meðal annars að of margar hænur væru í hverju búri.
Í Kastljósi í gærkvöldi kom fram að egg frá Brúneggjum væru seld á tæplega 40% hærra verði en venjulegu brúhænuegg þar sem þau eru merkt sem vistvæn landbúnaðarafurð. MAST hefur lagt dagsektir á fyrirtækið vegna aðbúnaðarins sem nema 2,6 milljónum króna.
Þá kom jafnframt fram að MAST hefði gert ítrekaðar athugasemdir við aðbúnað hænsnanna hjá Brúneggjum frá árinu 2007.
Í ársreikningi Brúneggja má sjá að bræðurnir Björn Jónsson og Kristinn Gylfi Jónsson eiga jafnan hlut í fyrirtækinu í gegnum eignarhaldsfélögin Bala ehf. og Geysi fjárfestingafélag ehf.
Bali ehf., sem er í eigu Björns hagnaðist um 96,9 milljónir króna á síðasta ári en Geysir fjárfestingafélag, sem er í eigu Kristins Gylfa um 97,3 milljónir.
Frá árinu 2010 hafa Brúnegg hagnast um 219 milljónir króna.