Kærir starfsmenn bankans

Seðlabanki Íslands
Seðlabanki Íslands mbl.is/Ómar Óskarsson

Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu hefur borist kæra frá lögmanni Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja, þar sem þess er farið á leit við embættið að það hefji rannsókn á meintum brotum Arnórs Sighvatssonar aðstoðarseðlabankastjóra og Ingibjargar Guðbjartsdóttur, framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlits bankans, gagnvart Þorsteini Má.

Segir í kærunni að fyrrnefndir starfsmenn bankans hafi að mati kæranda leitast við að „koma því til leiðar með rangfærslum, villandi málatilbúnaði og ófullnægjandi upplýsingum að kærandi yrði sakaður um eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað sem getur varðað fangelsi allt að tveimur árum“.

Í kærunni kemur jafnframt fram að Þorsteinn Már telji aðstoðarseðlabankastjórann og framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlitsins hafa misnotað stöðu sína sem opinberir starfsmenn. Það hafi þau ekki aðeins gert með ofangreindum hætti heldur einnig með því að „koma ekki fullnægjandi upplýsingum til embættis sérstaks saksóknara við rannsókn í sakamáli embættisins,“ á hendur honum. Þannig hafi þau gerst sek um að halla réttindum hans.

Í kæru forstjóra Samherja er einnig vakin athygli á því að í 138. grein hegningarlaga er opnað á þann möguleika að auka við refsingu opinberra starfsmanna sem sekir gerast um refsilagabrot, sé sýnt fram á verknað sem telja verði misnotkun á stöðu viðkomandi og „við því broti er ekki lögð sérstök refsing sem broti í embætti eða sýslan“. Felur ákvæðið í sér að þyngja megi refsingu um allt að helming miðað við almennan refsiramma sem viðkomandi broti er settur.

Rannsaki líka seðlabankastjóra

Í kæru Þorsteins Más er þess einnig farið á leit að þáttur annarra starfsmanna Seðlabankans í málinu verði rannsakaður sérstaklega. Er þar sérstaklega vísað til Más Guðmundssonar seðlabankastjóra og Sigríðar Logadóttur, yfirlögfræðings bankans. Er bent á að „stjórnskipunarleg staða þeirra innan bankans“ kalli á slíka rannsókn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK