Tengist ekki merki um vistvæna vottun

Íslenska fánaröndin stendur fyrst og fremst fyrir íslenskan uppruna vörunnar.
Íslenska fánaröndin stendur fyrst og fremst fyrir íslenskan uppruna vörunnar. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Samband garðyrkjubænda hefur einkaleyfi á vörumerkinu ,,Íslensku fánaröndinni“ en hún stendur fyrst og fremst fyrir íslenskan uppruna vörunnar. Þeir sem nota það vörumerki þurfa til þess leyfi frá Sambandi garðyrkjubænda. 

Í fréttatilkynningu áréttar sambandið að merki um vistvæna vottun sé Sambandi garðyrkjubænda óviðkomandi og er vísað í umfjöllun Kastljóss um Brúnegg og vistvæna vottun.

„Um þessar mundir stendur yfir innleiðing á gæðakerfi og endurskoðun á reglum um fánaröndina. Í framtíðinni mun Íslenska fánaröndin vera tákn um íslenskan uppruna og að þeir sem merkið nota fylgi fyrirfram mörkuðum gæðaferlum sem teknir eru út af þriðja aðila. Þegar er hafið reynsluverkefni í samvinnu við Heilbrigðiseftirlit Suðurlands vegna þess,“ segir í fréttatilkynningunni.

Þá hvetur Samband garðyrkjubænda og styður félaga sína og aðra til að vanda til verka við merkingar og þiggur gjarnan ábendingar um það sem betur mætti fara í þeim efnum. „Jafnframt væri ánægjulegt að fá upplýsingar um þá sem eru til fyrirmyndar varðandi nákvæmni og gæði í merkingum,“ segir í tilkynningunni.

„Það er sameiginlegt verkefni framleiðenda, seljenda og kaupenda að standa vel að merkingum og veita nauðsynlegt aðhald til að svo megi verða.  Sambandi garðyrkjubænda er bæði ljúft og skylt að taka  þátt í því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK