Eiga að standa með neytendum

Höfuðstöðvar MS í Reykjavík.
Höfuðstöðvar MS í Reykjavík. mbl.is/Kristinn

Alþýðusamband Íslands sakar Samtök atvinnulífsins um að vilja banna Samkeppniseftirlitinu að verja almannahagsmuni í tengslum við brot Mjólkursamsölunnar á markaði. ASÍ fagnar ákvörðun stjórnar Samkeppniseftirlitsins um að standa með neytendum og fara með mál Mjólkursamsölunnar fyrir dómstóla.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem ASÍ hefur sent frá sér. 

Bent er á að síðastliðið sumar hafi Samkeppniseftirlitið komist að þeirri niðurstöðu eftir ítarlega rannsókn að Mjólkursamsalan hefði brotið með alvarlegum hætti gegn banni við misnotkun á markaðsráðandi stöðu. MS skaut málinu til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem komst í liðinni viku að þeirri niðurstöðu að búvörulög veiti MS undanþágu frá ákvæðum samkeppnislaga um misnotkun á markaðsráðandi stöðu og felldi þar með úr gildi ákvörðun Samkeppniseftirlitsins sem og 400 milljóna króna sekt á fyrirtækið. Nefndin staðfesti hins vegar að MS hefði framið alvarleg brot á upplýsingaskyldu samkeppnislaga og beri að greiða 40 milljóna króna sekt vegna þessa.

Leit brotin alvarlegum augum

„Alþýðusambandið leit brot Mjólkursamsölunnar mjög alvarlegum augum á sínum tíma, sem leiddi m.a. til þess að sambandið ákvað að skipa ekki fulltrúa í verðlagsnefnd mjólkurafurða og krafðist þess að umrædd undanþága mjólkuriðnaðarins gagnvart samkeppnislögum yrði afnumin.

Með almannahagsmuni að leiðarljósi hefur stjórn Samkeppniseftirlitsins ákveðið að skjóta ákvörðun áfrýjunarnefndar samkeppnismála til dómstóla og stefna Mjólkursamsölunni til þess að fá ógilda niðurstöðu áfrýjunarnefndarinnar um samspil búvörulaga og samkeppnislaga og fá úr því skorið fyrir dómstólum hvort bann samkeppnislaga við misnotkun á markaðsráðandi stöðu taki til Mjólkursamsölunnar,“ segir ASÍ.

SA verja hagsmuni MS

„Til þess að verja hagsmuni  Mjólkursamsölunnar, sem er í yfirburða stöðu á íslenskum mjólkurmarkaði, hvetja Samtök atvinnulífsins til þess að ákvæði sem heimilar Samkeppniseftirlitinu að skjóta úrskurðum áfrýjunarnefndar samkeppnismála til dómstóla verði fellt úr gildi. Það skýtur skökku við að hagsmunasamtök fyrirtækja í landinu skuli leggjast gegn því að Samkeppniseftirlitinu sé gert kleift að tryggja virka samkeppni á mjólkurmarkaði og vernda þar með hagmuni minni keppinauta og neytenda.

Alþýðusambandið styður málshöfðunarheimild Samkeppniseftirlitsins og telur brýnt að eftirlitið hafi skyldur og heimildir til þess að bregðast við sem raunverulegur sjálfstæður eftirlitsaðili þegar fyrirtæki á markaði beita samkeppnishamlandi hegðun sem beinlínis vegur að hagsmunum neytenda. Alþýðusambandið fagnar því ákvörðun stjórnar Samkeppniseftirlitsins um að standa með neytendum og fara með mál Mjólkursamsölunnar fyrir dómstóla og fá þannig úr því skorið hvort markaðsráðandi mjólkurafurðastöð sé í skjóli búvörulaga heimilt að misnota stöðu sína og brjóta samkeppnislög,“ segir enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK