Sölufélag garðyrkjumanna segir ljóst að nú sem endranær uppfylli afurðir garðyrkjunnar skilgreiningu vistvænnar ræktunar. Þetta kemur fram í yfirlýsingu félagsins í ljósi umræðunnar um notkun á vistvænum merkingum.
Þar kemur fram að eftir að landbúnaðarráðuneytið ákvað fyrir ári að fella reglugerð um vistvænan landbúnað úr gildi hafi félagið hætt að merkja vörur sínar sem vistvænar landbúnaðarafurðir.
Áður en til þess kom hóf Samband garðyrkjumanna innleiðingu gæðahandbókar garðyrkjunnar sem er merkt með íslensku fánaröndinni. Viðamikil upptaka á gæðakerfinu stendur yfir hjá öllum framleiðendum og er sérstakur starfsmaður að vinna í því verkefni.
„Mikil þróun hefur orðið í vistvænni ræktun á þeim 17 árum sem liðin eru frá því farið var að merkja vistvæna landbúnaðarframleiðslu. Fullyrða má að ræktunin sé nú mun vistvænni en í fyrstu, enda hafa miklar framfarir orðið á þessum tíma, m.a. í notkun á lífrænum vörnum,“ segir í tilkynningunni.
„Bændum innan Sölufélags garðyrkjumanna er mjög umhugað um samband sitt við neytendur. Í því samhengi má benda á að vörur okkar hafa verið upprunamerktar í 13 ár, til að stytta leiðina á milli bóndans og neytandans. Það er von okkar að þetta góða samband haldi áfram með sama hætti og ávallt.“
Einnig kemur fram að vörur félagsins hafi verið upprunamerktar í 13 ár.
Hér má lesa tilkynninguna í heild sinni:
Bændur hjá Sölufélagi garðyrkjumanna hafa ræktað grænmeti með einstaklega vistvænum hætti um árabil. Þar hafa íslenska vatnið, lífrænar varnir og endurnýjanleg orka skipt mestu. Afurðirnar hafa árum saman verið merktar sem vistvænar landbúnaðarafurðir því til staðfestingar, í samræmi við reglugerð um vistvænan landbúnað.
Þegar landbúnaðarráðuneytið ákvað fyrir ári síðan að fella reglugerðina úr gildi ákvað Sölufélagið að hætta notkun merkisins. Nokkru áður en til þess kom hóf Samband garðyrkjumanna innleiðingu gæðahandbókar garðyrkjunnar sem merkt er með íslensku fánaröndinni. Viðamikil upptaka á gæðakerfinu stendur yfir hjá öllum framleiðendum og er sérstakur starfsmaður að vinna að því verkefni.
Allar nýjar umbúðir hjá Sölufélagi garðyrkjumanna eru nú eingöngu merktar með íslensku fánaröndinni. Þar sem umbúðir eru keyptar inn í stórum skömmtum til að ná hægræði í verði, þá er félagið enn að klára birgðir merktar vistvænum landbúnaði, en mun hraða því ferli eins hratt og kostur er.
Þær vörur sem enn eru með vistvæna merkinu eru líka með fánaröndinni. Hún táknar íslenskan uppruna og að þeir sem merkið nota fylgja fyrirfram mörkuðum gæðaferlum sem teknir verða út af þriðja aðila. Gæðaviðmiðin innihalda m.a. þá staðla sem voru á bak við vistvæna merkið á sínum tíma og gott betur. Því er ljóst að nú sem endranær uppfylla afurðir garðyrkjunnar skilgreiningu vistvænnar ræktunar.
Mikil þróun hefur orðið í vistvænni ræktun á þeim 17 árum sem liðin eru frá því farið var að merkja vistvæna landbúnaðarframleiðslu. Fullyrða má að ræktunin sé nú mun vistvænni en í fyrstu, enda hafa miklar framfarir orðið á þessum tíma, m.a. í notkun á lífrænum vörnum.
Bændum innan Sölufélags garðyrkjumanna er mjög umhugað um samband sitt við neytendur. Í því samhengi má benda á að vörur okkar hafa verið upprunamerktar í 13 ár, til að stytta leiðina á milli bóndans og neytandans. Það er von okkar að þetta góða samband haldi áfram með sama hætti og ávallt.