Walker furðar sig á Íslendingum

Iceland rekur tæplega 900 verslanir í Bretlandi, á Írlandi, í …
Iceland rekur tæplega 900 verslanir í Bretlandi, á Írlandi, í Tékklandi og á Íslandi. mbl.is/Hjörtur

Malcolm Walker, stofnandi Iceland-keðjunnar í Bretlandi, segir að viðræður sendinefndar fyrirtækisins með fulltrúum Íslands varðandi skráningu á orðmerkinu „Ice­land“ hjá Hug­verka­rétt­ar­stofn­un ESB (EUIPO) hafi farið út um þúfur þar sem íslensk stjórnvöld vilji ekki ræða málið af alvöru.

Þetta segir Walker í samtali við breska ríkisútvarpið.

Í lok nóvember sendi utanríkisráðuneytið frá sér tilkynningu, þar sem greint var frá því að ráðuneytið hefði gripið til laga­legra aðgerða gegn bresku versl­un­ar­keðjunni Ice­land Foods, þar sem fyr­ir­tækið hefði um ára­bil beitt sér gegn því að ís­lensk fyr­ir­tæki gætu auðkennt sig með upp­runa­landi sínu við markaðssetn­ingu á vör­um sín­um og þjón­ustu í Evr­ópu.

Sendinefnd frá keðjunni fundaði með fulltrúum íslenskra stjórnvalda fyrir helgi. Íslensk stjórn­völd sögðu, að Iceland hefði hafnað því að afskrá orðmerkið „Ice­land“ og kynnti til­lög­ur sem stóðust ekki vænt­ing­ar Íslands.

mbl

„Íslensk stjórnvöld líta svo á að notk­un á orðinu „Ísland“ snú­ist um grund­vall­ar­atriði. Það sé ólíðandi að einka­fyr­ir­tæki eigi einka­rétt á orðmerk­inu „Ice­land“ í öll­um lönd­um Evr­ópu­sam­bands­ins, enda komi það í veg fyr­ir að ís­lensk fyr­ir­tæki og stofn­an­ir geti skráð vöru sína með til­vís­un í upp­runa­landið Ísland,“ sagði í tilkynningu sem var send út eftir fundinn.

Walker segir að viðræðurnar hafi farið út um þúfur þegar það varð ljóst að íslensk stjórnvöld hefðu engan áhuga á málamiðlunum. 

Hann segist ekki skilja hvers vegna þetta hafi allt í einu orðið svona mikið vandamál hjá íslenskum stjórnvöldum. 

Hann bendir á að frá 2007 til 2012 hafi meirihluti hluthafa í Iceland verið íslenskir. Walker bendir á, að á þessum tíma hefði enginn gert athugasemdir við það hvernig fyrirtækið vann að sinni markaðssetningu. 

Sögu Iceland-verslananna má rekja til ársins 1970, en fyrsta verslunin opnaði í Shropshire á Englandi. Fram kemur á vef BBC, að Rhianydd Walker, eiginkona Malcolm Walker, hafi stungið upp á nafninu. 

Iceland rekur nú tæplega 900 verslanir í Bretlandi, á Írlandi, Tékklandi og á Íslandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka