Malcolm Walker, stofnandi Iceland-keðjunnar í Bretlandi, segir að viðræður sendinefndar fyrirtækisins með fulltrúum Íslands varðandi skráningu á orðmerkinu „Iceland“ hjá Hugverkaréttarstofnun ESB (EUIPO) hafi farið út um þúfur þar sem íslensk stjórnvöld vilji ekki ræða málið af alvöru.
Þetta segir Walker í samtali við breska ríkisútvarpið.
Í lok nóvember sendi utanríkisráðuneytið frá sér tilkynningu, þar sem greint var frá því að ráðuneytið hefði gripið til lagalegra aðgerða gegn bresku verslunarkeðjunni Iceland Foods, þar sem fyrirtækið hefði um árabil beitt sér gegn því að íslensk fyrirtæki gætu auðkennt sig með upprunalandi sínu við markaðssetningu á vörum sínum og þjónustu í Evrópu.
Sendinefnd frá keðjunni fundaði með fulltrúum íslenskra stjórnvalda fyrir helgi. Íslensk stjórnvöld sögðu, að Iceland hefði hafnað því að afskrá orðmerkið „Iceland“ og kynnti tillögur sem stóðust ekki væntingar Íslands.
„Íslensk stjórnvöld líta svo á að notkun á orðinu „Ísland“ snúist um grundvallaratriði. Það sé ólíðandi að einkafyrirtæki eigi einkarétt á orðmerkinu „Iceland“ í öllum löndum Evrópusambandsins, enda komi það í veg fyrir að íslensk fyrirtæki og stofnanir geti skráð vöru sína með tilvísun í upprunalandið Ísland,“ sagði í tilkynningu sem var send út eftir fundinn.
Walker segir að viðræðurnar hafi farið út um þúfur þegar það varð ljóst að íslensk stjórnvöld hefðu engan áhuga á málamiðlunum.
Hann segist ekki skilja hvers vegna þetta hafi allt í einu orðið svona mikið vandamál hjá íslenskum stjórnvöldum.
Hann bendir á að frá 2007 til 2012 hafi meirihluti hluthafa í Iceland verið íslenskir. Walker bendir á, að á þessum tíma hefði enginn gert athugasemdir við það hvernig fyrirtækið vann að sinni markaðssetningu.
Sögu Iceland-verslananna má rekja til ársins 1970, en fyrsta verslunin opnaði í Shropshire á Englandi. Fram kemur á vef BBC, að Rhianydd Walker, eiginkona Malcolm Walker, hafi stungið upp á nafninu.
Iceland rekur nú tæplega 900 verslanir í Bretlandi, á Írlandi, Tékklandi og á Íslandi.