Tveir einstaklingar sem ákærðir voru í hinu svokallaða Asertamáli hafa lagt fram kæru á hendur æðstu embættismönnum Seðlabankans fyrir rangar sakargiftir. Það munu vera þeir Gísli Reynisson og Markús Máni Mikaelsson Maute. Þetta kemur fram í bók Björns Jóns Bragasonar sem ber heitið Gjaldeyriseftirlitið – Vald án eftirlits? sem kemur út hjá Almenna bókafélaginu nú í vikunni. Þar segir að í október síðastliðnum hafi lögmennirnir Reimar Pétursson og Eva Halldórsdóttir lagt fram kæru á hendur æðstu embættismönnum Seðlabankans fyrir hönd tvímenninganna og samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er þar einkum vísað til Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra, Sigríðar Logadóttur, aðallögfræðings bankans, og Ingibjargar Guðbjartsdóttur, forstöðumanns gjaldeyriseftirlits sömu stofnunar.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er í kærunni einkum kallað eftir rannsókn á framgöngu Más Guðmundssonar seðlabankastjóra, Sigríðar Logadóttur, aðallögfræðings bankans, og Ingibjargar Guðbjartsdóttur, forstöðumanns gjaldeyriseftirlits stofnunarinnar.
Kærurnar eru ekki hinar fyrstu af þessu tagi því í síðasta mánuði kærði Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, þau Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóra og Ingibjörgu Guðbjartsdóttur fyrir rangar sakargiftir. Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir, að fleiri einstaklingar sem sætt hafa rannsókn og kærum af hálfu Seðlabankans séu að kanna réttarstöðu sína.