Malcolm Walker, stofnandi Iceland-keðjunnar í Bretlandi, barðist við „víking“ á jólaboði matvælakeðjunnar nú um helgina, eftir að viðræður sendinefndar fyrirtæksins með fulltrúum Íslands varðandi skráningu á orðmerkinu „Iceland“ fóru út um þúfur sl. föstudag.
Frá þessu er greint á vef dagblaðsins Daily Post, sem birtir myndband af Walker fella víkinginn við mikinn fögnuð hundraða starfsmanna fyrirtækisins í jólaboðinu sem haldið var í Deeside.
Víkingaþema var í jólaboðinu og sést Walker þar segja við starfsmenn áður enn hann setur á sig víkingahjálm: „Þið hafi séð fréttir vikunnar – ég veit ekki hver átti þessa bjánalegu hugmynd að hafa víkingakvöld í kvöld þegar íslensk stjórnvöld eru að fara í mál við okkur um nafnið!“
Því næst heyrist lúðrahljómur og Walker leggur til atlögu við vígalega klæddan, síðhærðan víking með feld á öxlum og öxi í hendi. Walker heggur með sverði sínu til víkingsins og sparkar síðan í hann eftir að hann er fallinn við mikil fagnaðarlæti gesta.
Daily Post hefur eftir talsmanni Iceland Foods að ákvörðunin um að hafa víkingaþema í jólaboðinu hafi verið tekin fyrir mörgum mánuðum, löngu áður en deilan við íslensk stjórnvöld kom upp.
Fréttavefur BBC hafði eftir Walker um helgina að viðræður sendinefndar fyrirtækisins með fulltrúum Íslands varðandi skráningu á orðmerkinu „Iceland“ hjá Hugverkaréttarstofnun ESB (EUIPO) hafi farið út um þúfur þar sem íslensk stjórnvöld vilji ekki ræða málið af alvöru.
Utanríkisráðuneytið greindi frá því í lok nóvember að ráðuneytið hefði gripið til lagalegra aðgerða gegn Iceland Foods, þar sem fyrirtækið hefði um árabil beitt sér gegn því að íslensk fyrirtæki gætu auðkennt sig með upprunalandi sínu við markaðssetningu á vörum sínum og þjónustu í Evrópu.