Hugi að netöryggi fjármálamarkaða

Seðlabanki Íslands leggur áherslu á að gætt sé öryggis í …
Seðlabanki Íslands leggur áherslu á að gætt sé öryggis í tengslum við innviði fjármálamarkaða. Árni Sæberg

Netárásir virðast æ algengari og alvarlegri og veikari vörn er í landamærum en áður. Það kallar á aðgæslu allra þeirra sem starfa á fjármálamarkaði og öflugt samstarf opinberra aðila og helstu fjármálastofnana. Þetta kemur fram í ritinu Fjármálainnviðir sem Seðlabanki Íslands gaf út í dag.

Segir þar að augu stjórnvalda víða um heim beinist í auknum mæli að öryggi í net- og upplýsingakerfum, þar með talið á sviði fjármálaþjónustu. Vísað er til þess að í uppfærðum alþjóðlegum kjarnareglum um innviði fjármálamarkaða séu nú sérstakar leiðbeiningar hvernig auka megi viðnámsþrótt fjármálainnviða gegn netárásum.

Nefnir Seðlabankinn að í auknum mæli hafi tæknilegum rekstri verið útvistað til utanaðkomandi sérhæfðra tækniþjónustuveitenda. „Þessi þróun hefur vissulega ýmsa kosti, en henni fylgir jafnframt áhætta,“ segir í ritinu.

Ítrekað er að eigendum og rekstraraðilum mikilvægra innviða ber skylda til að leita allra leiða til að lágmarka rekstraráhættu með skilvirkri og ábyrgri framkvæmd áhættustýringar.

Athygli vekur að Seðlabankinn nefnir í ritinu rafræna gjaldmiðla á nafn sem eitthvað sem sé í skoðun hjá erlendum seðlabönkum varðandi að einfalda uppgjörsferli greiðslna og verðbréfaviðskipta. Séu slíkir gjaldmiðlar mögulegir áhrifavaldar á tilhögun innviða og samkeppni í greiðslumiðlun í framtíðinni að sögn Seðlabankans. Þekktasti rafræni gjaldmiðillinn í dag er Bitcoin, en í riti Seðlabankans er aftur á móti vísað til nýtingar á svokallaðri DLT-tækni (distributed ledger technology), sem er grunnurinn í rafrænum gjaldmiðlum.

Seðlabankinn segir þó alls óljóst hvort fjárhagslegur ávinningur verði í raun fólginn í hagnýtingu þessarar tækni. 

Ritið má í heild sinni lesa hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK