Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrverandi eigandi bresku matvöruverslunarkeðjunnar Iceland Foods reyndi að ná samkomulagi við íslensk stjórnvöld um vörumerkið Iceland árið 2006 en fékk aldrei svör. Þetta kom fram í frétt The Everning Standard í gær.
„Við buðum íslenskum stjórnvöldum mjög sanngjarnan samning árið 2006 þegar við vorum eigendurnir. Þau svöruðu aldrei,“ er haft eftir Jóni Ásgeiri.
Í síðasta mánuði greindi utanríkisráðuneytið frá því að gripið hafi verið til lagalegra aðgerða gegn keðjunni og sagði í tilkynningu að fyrirtækið hefði um árabil beitt sér gegn því að íslensk fyrirtæki gætu auðkennt sig með upprunalandi sínu við markaðssetningu á vörum sínum og þjónustu í Evrópu.
Stjórnendur Iceland Foods sendu samninganefnd til Reykjavíkur í síðustu viku til þess að hitta Lilju D. Alfreðsdóttur, utanríkisráðherra. Að sögn stofnanda Iceland Foods er „enginn áhugi“ hjá íslsenskum stjórnvöldum fyrir því að komast að samkomulagi í málinu. Í skriflegu svari Lilju við fyrirspurn mbl.is frá því í gær kemur fram að íslensk stjórnvöld ekki sjá fyrir sér neinar samningaviðræður við breska fyrirtækið, nema það ljái máls á því að afsala sér einkaréttinum með formlegum hætti.
„Ég held að það sé auðvelt að finna lausn,“ er haft eftir Jóni Ásgeiri. „Rétta fólkið þarf að setjast niður til þess að það gerist.“