Breski auðmaðurinn Jim Ratcliffe hefur keypt þrjár jarðir í Vopnafirði og á þar með að hluta eða í heild ellefu jarðir í Vopnafirði, en eignarhlut í hinum jörðunum á hann í gegnum Veiðiklúbbinn Streng ehf. Þetta kemur fram í frétt Austurfréttar í dag. Jarðirnar sem keyptar voru í október eru Síreksstaðir, Guðmundarstaðir og Háteigur, en þær eru allar við Sunnudalsá.
Ratcliffe er samkvæmt Forbes fimmti ríkasti maður Bretlandseyja og númer 233 yfir ríkustu menn heims. Hann efnaðist sem stjórnandi og aðaleigandi efnafyrirtækisins Ineos sem framleiðir plastefni, vökva og endurnýjanlega orku úr sorpi.
Í frétt á vef Austurfréttar kemur fram að eignarhald jarðanna megi rekja í gegnum íslensk félög til Hallicilla limited sem sé skráð í Bretlandi. Forsvarsmaður þess félags er efnafræðingurinn Bill Reid, en viðskiptin með jarðirnar í Vopnafirði voru einnig gerð í umboði hans. Austurfrétt segir að eini eigandi Hallicilla sé aftur á móti Ratcliffe.
Auðmenn hafa lengi haft auga á jörðum á þessum slóðum, en einkum er talið að sóst sé eftir atkvæðarétti í tengslum við veiðirétt í ám á svæðinu. Á svæðinu eru meðal annars Hofsá, Selá og svo Sunnudalsá.
Ratcliffe kom sjálfur til Íslands í júlí á þessu ári, en þá lentu þrjár einkaþotur í hans eigu á Egilsstaðaflugvelli.
Samkvæmt Forbes eru eignir Ratcliffe metnar á 7 milljarða dali, eða um 800 milljarða króna.