Frá og með mars á þarnæsta ári verður hægt að ferðast beint frá Lundúnum til Perth í Ástralíu. Er þetta í fyrsta skipti sem hægt verður að ferðast milli borganna án millilendingar.
Ástralska flugfélagið Qantas greindi frá því í dag að frá og með mars 2018 verði boðið upp á beint flug milli Perth og Lundúna á Boeing 787-9 Dreamliner-þotum. Ferðin tekur sautján klukkustundir en vegalengdin er rétt um 14.500 kílómetrar.
Ferðamálaráðherra Ástralíu, Steven Ciobo, fagnar tíðindunum í samtali við BBC og segir að þetta muni breyta miklu fyrir ferðamennsku, bæði til Bretlands og Ástralíu. Þá er gert ráð fyrir því að beina flugið muni hafa jákvæð áhrif á atvinnulíf í Perth og ferðaiðnaðinn en hann hefur vaxið þrisvar sinnum meira en aðrar greinar síðustu ár. Eins og staðan er núna starfa 580.000 manns í ástralska ferðaiðnaðinum.
Að sögn Ciobo eru Bretar í þriðja sæti yfir flesta erlenda ferðamenn sem koma til Ástralíu. Á síðasta ári ferðuðust 660.000 manns frá Bretlandi til Ástralíu.
Þá fagnar framkvæmdastjóri Qantas, Alan Joyce, nýju flugleiðinni sömuleiðis. Bendir hann á að árið 1947 tók ferðalagið milli Lundúna og Perth fjóra daga og níu millilendingar. „Núna tekur ferðalagið aðeins sautján klukkustundir.“