Amazon hefur nú opnað fyrir efnisveitu sína, Prime Video, í yfir 200 löndum og landsvæðum heimsins. Þar á meðal er Ísland, að því er fram kemur á vef fyrirtækisins.
Samkvæmt lista yfir þau lönd, þar sem þjónustan er nú aðgengileg, má sjá að þjónustan mun kosta Íslendinga 2,99 evrur á mánuði, eða sem nemur rúmum 350 krónum.
Áskriftarverðið verður þannig í hálft ár, þangað til það hækkar í 5,99 evrur á mánuði, eða um 715 krónur. Þá er einnig í boði frí áskrift í sjö daga fyrir þá sem vilja prófa þjónustuna.
Þetta þýðir að efnisveitan er aðgengileg í fleiri löndum en Netflix, sem opnaði á 130 markaðssvæðum fyrr á árinu.
En þótt Amazon geti náð til fleiri áhorfenda hefur Netflix líklega forskotið þegar kemur að framboði á efni. Ekki er enn ljóst hvaða kvikmyndir og sjónvarpsþættir verði í boði í hverju landi, en Amazon segir að þættir sem aðgengilegir verði um allan heim verði meðal annars Mozart in the Jungle, Transparent, The Man in the High Castle, og The Grand Tour.
Sá síðastnefndi er líklegastur til að trekkja að áskrifendur, enda er um að ræða framhald á Top Gear þætti BBC, með Jeremy Clarkson og félögum.