Reginn kaupir Urðarhvarf 6 og Víkurhvarf 8

Urðarhvarf 6 í Kópavogi.
Urðarhvarf 6 í Kópavogi. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Í dag var undirritað kauptilboð á milli Regins hf. og eigenda fasteignafélagsins U6 ehf. um kaup Regins á öllu hlutafé í félaginu. Kauptilboðið er m.a. með fyrirvörum um áreiðanleikakönnun og samþykki Samkeppniseftirlitsins. Þetta kemur fram í tilkynningu Regins til Kauphallarinnar.

Fyrirhuguð kaup á U6 miðast við að heildarvirði eignasafns félagsins sé 2.700 milljónir króna. Vænt arðsemi fjárfestingarinnar fyrir árið 2017 er um 6,7%.

Fasteignasafn U6 samanstendur af tveimur fasteignum, Urðarhvarfi 6 og Víkurhvarfi 8 í Kópavogi. Heildarfermetrafjöldi fasteignasafnsins er 10.290 fermetrar, að stærstum hluta skrifstofuhúsnæði. Útleiguhlutfall fasteignasafnsins er 100% og eru núverandi leigutekjur um 224 milljónir króna á ársgrundvelli. Leigutakar eru þrír og þar af er Mannvit hf. stærsti leigutakinn með langtímaleigusamning. Ef af kaupunum verður stækkar eignasafn Regins um rúm 3% miðað við fermetrafjölda.

Reginn tilkynnti 17. nóvember síðastliðinn um samkomulag um kaup á eignarhlut í FM-húsum ehf., ásamt meðfjárfestum, og stendur yfir áreiðanleikakönnun á félaginu auk þess sem þau kaup eru jafnframt háð samþykki Samkeppniseftirlitsins. Regin er heimilt, samkvæmt kauptilboðinu um U6 ehf., að framselja réttindi sín og skyldur yfir til félagsins FM-hús ehf. sem yrði þá endanlegur kaupandi að U6 ehf.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK