IKEA greiðir foreldrum miskabætur

IKEA.
IKEA. AFP

IKEA hefur gert samkomulag við þrjár bandarískar fjölskyldur um greiðslu miskabóta upp á 50 milljónir Bandaríkjadala, sem svarar til 5,7 milljarða króna, vegna andláts barna þeirra þegar kommóður keyptar í IKEA sporðreistust og börnin urðu undir.

Um er að ræða gríðarlega vinsælar kommóður, Malm, en börnin þrjú voru um tveggja ára aldur þegar þau létust, það síðasta í febrúar.

Samkvæmt frétt NBC verður fénu skipt jafnt á milli fjölskyldnanna. Eins mun IKEA ánafna 50 þúsund Bandaríkjadölum til þriggja barnaspítala og 100 þúsund dölum til samtaka sem ekki eru rekin í ágóðaskyni en annast öryggiseftirlit.

Drengirnir þrír sem létust.
Drengirnir þrír sem létust. Skjáskot af PRN

Eftir síðasta dauðsfallið innkallaði IKEA tæplega 30 milljónir Malm-kommóða í nokkrum löndum. Áður hafði viðskiptavinum verið boðið upp á ókeypis veggfestingar til þess að tryggja að kommóðan sporðreistist ekki. Eigendur slíkra kommóða voru hvattir til þess að taka þær strax úr notkun ef þær væru ekki veggfastar á þeirra heimili. Jafnframt var mælt með því að fólk væri ekki með Malm-kommóður í barnaherbergjum.

IKEA hefur selt meira en 147 milljónir kommóða síðustu 13 árin og er rúmlega helmingur þeirra, 78 milljónir, af Malm-gerð. 

Curren Collas var tveggja ára gamall þegar hann varð undir Malm-kommóðu á heimili sínu fyrir tveimur árum. Þegar móðir hans, Jackie Collas, fór inn í herbergið hans til þess að klæða hann sá hún kommóðuna liggjandi á hliðinni.

„Ég sá hann hvergi svo ég sneri öllu við í herberginu. Síðan sá ég að höfuðið á honum var fast á milli rúmsins og kommóðunnar,“ segir hún í viðtali við NBC. Kommóðan hafði ekki verið fest við vegginn. 

Janet McGee, móðir Ted sem lést í febrúar eftir að hafa fengið kommóðuna yfir sig, segir að hún vilji engum svo illt að þurfa að ganga í gegnum það sem fjölskyldan upplifði. Ted var 22 mánaða þegar hann lést. Hún segir að engir peningar geti komið í staðinn fyrir barnið sem þau misstu.

Camden Ellis fékk kommóðuna yfir sig á heimili sínu í Washington árið 2014. Þrátt fyrir víðtækar aðgerðir til þess að reyna að bjarga lífi hans var slökkt á öndunarvél hans 15. júní 2014, aðeins nokkrum dögum eftir tveggja ára afmæli hans.

Nánari upplýsingar um samkomulagið

Malm-kommóða.
Malm-kommóða. Af vef Ikea
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK