Tölvuleikjafyrirtækið Solid Clouds er fyrsta félagið til að fá samþykki ríkisskattstjóra fyrir rétti fjárfesta til skattafrádráttar vegna þátttöku í fyrirhugaðri hlutafjáraukningu félagsins samkvæmt nýsamþykktum lögum um tekjuskatt.
Í stórum dráttum virkar nýja kerfið þannig að fyrirtæki, að fengnu leyfi ríkisskattstjóra, má bjóða út hlutafé fyrir allt að tvo milljarða. Hver má fjárfesta fyrir tíu milljónir á ári og fær helming af þeirri fjárhæð frádráttabæra frá skattskyldum tekjum. Á móti þarf að skuldbinda sig að eiga bréfin í þrjú ár hið minnsta. Breytingin er miðuð við sprota- og nýsköpunarfyrirtæki með 25 starfsmenn eða færri.
„Þetta er náttúrulega umbun fyrir þolinmæði og ákveðna áhættu,“ segir Davíð Lúðvíksson, forstöðumaður stefnumótunar og nýsköpunar Samtaka iðnaðarins, í samtali við mbl.is. Hann segist fagna því að Solid Clouds hafi fengið samþykkið og segir mikilvægt að fá fólk til þess að fjárfesta í þessum geira.
„Það hefur verið ákveðin deyfð í kringum hlutabréfamarkaðina hér á landi og orðið mun minna af einstaklingum sem eru að fjárfesta, það eru frekar félög og lífeyrissjóðir,“ segir Davíð.
Að mati Davíðs og Samtaka iðnaðarins eru ákveðnir ágallar á löggjöfinni sem var samþykkt í júní sem hefur valdið því að fyrirtækin hafa átt í erfiðleikum með að nýta sér þessa annars ágætu löggjöf. SI hafa sent fjármálaráðuneytinu útlistun á því sem mætti öðruvísi fara að þeirra mati.
Til að mynda er það sú staðreynd að aðeins fyrirtæki með 25 eða færri starfsmenn og 650 milljóna króna ársveltu sem geta fengið samþykki ríkisskattstjóra og að mati SI er það frekar þröngur rammi. Bendir Davíð á að löggjöfin byggi á reglugerð frá ESA en hún felur í sér mun rýmri heimildir en fjármálaráðuneytið hér kaus að nýta sér við gerð á löggjöfinni.
„Með þessum þrönga ramma skaðar þetta eiginlega sjálft sig,“ segir Davíð. „Það eru að okkar mati of mörg óþarflega þröng skilyrði í íslensku lögunum. Reglugerð ESA gerir t.d ráð fyrir allt að 250 starfsmönnum. Við höfum tilhneigingu til þess að hugsa svo smátt hérna og höldum að það dugi okkur til að byggja upp fyrirtæki á alþjóðlegum markaði. Í reynd er það mun erfiðara að byggja upp slík fyrirtæki hér á landi, en á meginlandi Evrópu þar sem nálægðin við markaðinn er miklu meiri.“
Annað dæmi sem veldur fyrirtækjum vanda segir Davíð þá staðreynd að fyrirtækin mega ekki bjóða tengdum aðilum, þ.e. starfsmönnum eða stjórn þeirra til dæmis, að kaupa hlutafé. „Þarna er þetta komið í eltingarleik sem er dálítið erfitt að fylgja eftir, bæði fyrir skattyfirvöld og aðra. Þá er verið að dæma stóran hluta af þeim hópi sem almennt er hvað virkastur í fjármögnun nýsköpunarfyrirtækja á uppbyggingartíma úr leik.“
Davíð segist finna fyrir því að fyrirtæki séu svolítið hrædd að nýta sér nýja fyrirkomulagið vegna þessara þröngu skilyrða, því í lögunum er jafnframt að finna kröfu um bakfærslu skattahvatans með álagi ef fyrirtæki uppfyllir ekki lengur skilyrðin, t.d. varðandi fjölda starfsmanna.
Spurður um viðbrögð frá ráðuneytinu eða stjórnvöldum við ábendingum SI segir Davíð að efnahags- og viðskiptanefnd hafi fjallað um málið í þinginu. „Þau sýndu því skilning en gátu ekki gengið gegn vilja ráðuneytisins. Við þurfum að eiga gott samstarf við ráðuneytið til þess að laga þessi atriði sem standa út af þannig að fyrirtækin og reyndar líka ríkissjóður geti notið ávaxtanna af þessu annars góða kerfi.“
Davíð segir fyrirkomulagið koma sér vel fyrir alla aðila og bendir á að ríkissjóður kæmi út úr þessu með jákvæðu greiðsluflæði frá fyrsta degi. „Þetta eru ekki þannig útgjöld sem menn þurfa að óttast. Í raun virkar þetta þannig að því fleiri sem nýta þetta því meiri tekjur fyrir ríkið. Það er ekki hægt að bjóða ríkinu betri fjárfestingarkost en þetta.“