Fjöldi veitingastaða verður opinn á aðfangadag enda margir ferðamenn á landinu yfir jól og áramót. Að minnsta kosti verða 18 veitingastaðir opnir á aðfangadag, samkvæmt lauslegri samantekt mbl.is á opnunartíma veitingastaða í Reykjavík sem er að finna á vefsíðunni visitreykjavik.is. Líklegt er að fleiri veitingahúsaeigendur ákveða að hafa opið á aðfangadaga og jóladag í ár en í fyrra í ljósi þess að erlendum ferðamönnum sem koma til landsins hefur fjölgað markvisst ár frá ári.
„Það hefur verið gríðarlega mikill vöxtur í fjölda gesta til landsins. Ferðamönnum hefur fjölgað mest yfir vetrarmánuðina til landsins. Ég býst við að gestum fjölgi í desember eins og síðustu tvo mánuði,“ segir Áshildur Bragadóttir forstöðumaður Höfuðborgarstofu. Hún bendir á að yfir 97% ferðamanna sem koma til landsins dvelja í Reykjavík einhvern tíma á meðan dvölinni stendur. Þess má geta að 40 flugvélar lenda á landinu á aðfangadag eflaust er stór hluti þeirra erlendir ferðamenn.
Öll borð á veitingastaðnum Steakhouse í Tryggvagötu eru bókuð á aðfangadag og þau síðustu voru pöntuð í morgun. Alls munu 144 snæða þar á aðfangadag sem ýmist setjast að borði klukkan 18 eða 21. Í fyrra var eingöngu hægt að panta borð klukkan 18 og árið þar áður var veitingahúsið lokað á aðfangadag.
„Fyrst ætluðum við að hafa bara opið kl. 18 en svo ákváðum við að bæta við því það fylltist allt á stuttum tíma,“ segir Hilmar Örn Hafsteinsson, vaktstjóri á veitingastaðnum Steakhouse í Tryggvagötu en þar verður opið öll jólin. Hann telur að fleiri veitingastaðir kjósi að hafa opið á aðfangadag og jóladag í ár en í fyrra. Í því samhengi bendir hann á fjölgun ferðamanna á landinu. „Ferðamennirnir verða líka að borða einhvers staðar,“ segir Hilmar. Hann segir undanfarið hafi verið krafa um að veitingastaðir á hótelunum séu opnir á þessu hátíðisdögum en fleiri veitingahús hafi bæst í hópinn jafnt og þétt.
Flestir sem hafa pantað borð eru erlendir ferðamenn en örfáir Íslendingar eru einnig í hópnum.
Hilmar verður sjálfur að vinna á aðfangadag og segir það leggjast vel í sig. „Það er alltaf gaman að vinna hér,“ segir hann léttur í bragði. Á aðfangadag verður boðið upp á sérstakan þriggja rétta jólamatseðil. Aðra daga, fyrir utan gamlársdag, verður hefðbundinn matseðill á boðstólnum.