106 stafsmenn Actavis á Íslandi fengu send uppsagnarbréf fyrir skömmu og taka uppsagnirnar gildi um áramótin. Þessu greindi DV frá fyrr í dag en í fréttinni kemur fram að um 150 starfsmönnum til viðbótar verði sagt upp á næstu mánuðum.
Áfram stendur til að loka lyfjaverksmiðju fyrirtækisins í Hafnarfirði í hagræðingarskyni næsta sumar en tilkynnt var um það í júní 2015. Starfsmennirnir fengu því tilkynningu um það í október á þessu ári hvenær þeim yrði gert að hætta störfum.
Frétt mbl.is - 100 missa vinnuna um áramót hjá Actavis
Morgunblaðið greindi frá því í október að liðlega hundrað manns lyfjaverksmiðju Actavis yrði sagt upp störfum um áramótin. Starfsmennirnir fá allir uppsagnarfrestinn greiddan, til samræmis við gildandi ráðningarsamning, án þess að til vinnuframlags þeirra komi. Uppsagnirnar munu í heildina taka til um 250 stafsmanna sem starfa í verksmiðju Actavis en áætlað er að þeir muni allir hafa hætt störfum næsta sumar.