Töluverðar framkvæmdir þarf að gera á 4.000 fermetra rými í Smáralind áður en það mun hýsa flaggskipsverslun H&M sem á að vera opnuð í september. Framkvæmdastjóri Smáralindar, Sturla Gunnar Eðvarðsson, segir að verslunin verði sú glæsilegasta á landinu en þar verður að finna kven-, karla- og barnafatnað frá H&M.
Verslun Debenhams er nú í rýminu en henni verður lokað í síðasta lagi í lok mánaðar. Rýmingarsalan þar hefur gengið betur en áætlað var og eru líkur á því að versluninni verði lokað fyrr en gert var ráð fyrir.
Fyrri frétt mbl.is: „Margir hafa gert reyfarakaup hérna“
„Þá hefjast mjög viðamiklar breytingar. Allt sem er í þessu rými Debenhams verður fjarlægt,“ segir Sturla og bætir við að núverandi rúllustigar verða fjarlægðir og nýr settur á öðrum stað. Þá verður innganginum breytt töluvert og inngangi inn í verslunina á suðvesturhorni lokað.
„Það má segja að þessi endi Smáralindar verði undir framkvæmdum allt þetta ár,“ segir Sturla. „Við skilum síðan versluninni af okkur í ákveðnu standi og þau hjá H&M setja síðan inn sínar innréttingar.“
Enn er stefnt að opnun verslunarinnar í september. Eins og fyrr segir er um flaggskipsverslun að ræða og verður hægt að fá vörur úr kven-, karla- og barnadeildum H&M.
„Þetta verður án efa glæsilegasta verslun landsins. Það er mikið lagt í þetta og þau hjá H&M eru spennt að koma til Íslands og hafa sett sitt besta fólk í þetta verkefni svo að allt gangi snurðulaust fyrir sig. En þetta er mikið ferli og tekur sinn tíma en samstarfið hefur gengið mjög vel.“