Bandaríska alríkislögreglan hefur handtekið stjórnanda hjá bílaframleiðandanum Volkswagen en hann er sakaður um að hafa tekið þátt í að falsa útblásturspróf hjá díselvélum framleiðandans. Maðurinn heitir Oliver Schmidt og hefur starfað hjá Volkswagen frá árinu 1997. Hann var yfirmaður hjá Volkswagen í Bandaríkjunum árið 2014 og 2015 og var handtekinn um helgina.
Í ákæru er Schmidt sakaður ásamt öðrum ónefndum starfsmanni Volkswagen um að skipuleggja að blekkja neytendur og villa fyrir rannsakendum.
Í tilkynningu Volkswagen til CNN kemur fram að fyrirtækið heldur áfram að vinna með dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna við rannsókn málsins sem komst upp árið 2014.
Það voru vísindamenn við háskólann í Vestur-Virgínu sem áttuðu sig á því að Volkswagen notaði sérstakan hugbúnað í vélum díselbifreiða sinna til þess að svindla á útblástursprófunum.
Í september 2015 viðurkenndi Volkswagen að hafa átt við hálfa milljón bíla í Bandaríkjunum og 11 milljónir bíla um allan heim til þess að komast í kringum reglugerðir. Fyrirtækið samþykkti að greiða 14,7 milljarða í skaðabætur til þess að ná sáttum, aðallega til eigenda bílanna.
Málið hefur dregið dilk á eftir sér og í nóvember tilkynnti Volkwagen að það þyrfti að leggja niður 30.000 störf vegna gríðarlegra útgjalda í tengslum við málið. Flest störfin, eða 23.000 eru í heimalandi fyrirtækisins, Þýskalandi. 610.000 manns starfa hjá Volkswagen um allan heim.