Vilja að ríkissjóður selji 200 þúsund fermetra af húsnæði

Í tillögum VÍ er fasteignasafninu skipt í þrjá flokka eftir …
Í tillögum VÍ er fasteignasafninu skipt í þrjá flokka eftir seljanleika. Þannig er lagt til að almennt skrifstofuhúsnæði, íbúðarhúsnæði, lögreglustöðvar og kirkjur verði alfarið seldar en þar er um að ræða 196 þúsund fermetra. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

„Með þessum tillögum erum við að benda á leiðir til þess að auka hagkvæmni í rekstri ríkisins og ef ráðist er í að selja þessar eignir mun það einnig geta leitt til þess að skuldir ríkisins lækki.“ Þetta segir Björn Brynjúlfur Björnsson, hagfræðingur hjá Viðskiptaráði Íslands (VÍ), sem birtir í dag nýja úttekt á umfangi fasteignarekstrar ríkisins. Þar er bent á að eignarhald ríkissjóðs á húsnæði spannar 880 þúsund fermetra í um 1.000 fasteignum.

„Við teljum að fyrsta skref í þessa átt ætti að felast í sölu skrifstofuhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu sem telur um 100 þúsund fermetra. Þar er um mjög almennan rekstur að ræða og úttekt fjármálaráðuneytisins sýnir annars vegar að leiguverð þessa húsnæðis er langt undir markaðsvirði og hins vegar að nýtingin er helmingi verri en alþjóðleg viðmið gera ráð fyrir,“ segir Björn Brynjúlfur.

Rök gegn eignarhaldi ríkisins

Í úttektinni eru færð fram þrenn meginrök fyrir því að draga úr fasteignaumsvifum ríkissjóðs. Í fyrsta lagi telur VÍ að með því megi draga úr áhættu þar sem mögulegt tjón vegna verðlækkana eða skaða á fasteignum yrði flutt af herðum skattgreiðenda og yfir á einkaaðila sem kaupa myndu fasteignirnar. Í öðru lagi er bent á að með því megi draga úr óhagkvæmni og í þriðja lagi að opinber fasteignarekstur skapi hagsmunaárekstra þar sem ríkið eigi fasteignir og sé með þær á leigu á sama tíma. Það leiði til þess að leiguverð endurspegli síður raunverulegt verðmæti fasteignanna sem um ræðir, sem aftur leiði til sóunar.

Þar bendir Björn á að meðal leiguverð á vegum ríkisins stendur í um 830 krónum á fermetra meðan meðal leiguverð á almennum markaði er um 2.066 krónur á fermetra og munar 149% á hinu lága verði á vettvangi ríkisins og raunverði á markaði. Þá virðist ríkið halda úti 32 fermetrum á hvert stöðugildi í þjónustu þess en fyrrnefnd viðmið á alþjóðavettvangi gera ráð fyrir 16 fermetrum á hvert stöðugildi.

Í skýrslunni er gerður samanburður á umfangi fasteignasafns ríkissjóðs og …
Í skýrslunni er gerður samanburður á umfangi fasteignasafns ríkissjóðs og stærstu fasteignafélaganna á almennum markaði.

Risi á markaðnum

Í skýrslunni er gerður samanburður á umfangi fasteignasafns ríkissjóðs og stærstu fasteignafélaganna á almennum markaði. Þannig er ríkissjóður borinn saman við fasteignafélögin þrjú sem skráð eru í Kauphöll Íslands. Samanburðurinn leiðir í ljós að fasteignasafn ríkissjóðs er í fermetrum talið tvöfalt stærra en fasteignasafn Reita, en það er stærst fyrrnefndra þriggja félaga. Reginn sem þar kemur á eftir er með 320 þúsund fermetra og Eik með 278 þúsund fermetra. Segir í úttekt VÍ að ríkið sé „svipað í umsvifum og stóru fasteignafélögin þrjú til samans.“

Misseljanlegar eignir

Í tillögum VÍ er fasteignasafninu skipt í þrjá flokka eftir seljanleika. Þannig er lagt til að almennt skrifstofuhúsnæði, íbúðarhúsnæði, lögreglustöðvar og kirkjur verði alfarið seldar en þar er um að ræða 196 þúsund fermetra. Þá telur ráðið að selja eigi að hluta þann flokk sem telur sérhæft atvinnuhúsnæði, skóla, heilbrigðistengt húsnæði og geymsluhúsnæði en þann flokk fylla 585 þúsund fermetrar. Enga breytingu vill VÍ hins vegar sjá á þeim flokki sem samanstendur af sögufrægum húsum, flugvallamannvirkjum, grunninnviðum og fangelsum.

Í anda stefnuyfirlýsingarinnar

Í úttekt VÍ er bent á að útleiga ríkiseigna innan ríkiskerfisins sjálfs, þar sem leiguverðið endurspeglar ekki markaðsverð, feli í sér dulinn stuðning. Þannig afsali ríkissjóður sér hluta af mögulegum leigutekjum af eignum sínum án þess að það komi fram sem fjárframlag eða stuðningur við leigutakann. Þannig komi raunverulegur kostnaður við rekstur opinberra stofnana ekki fram í ársreikningum þeirra nema að hluta til. Bent er á að það stangist á við markmið nýrrar ríkisstjórnar, þar sem tíundað sé mikilvægi ráðdeildar í opinberum fjármálum og það að temja sér gagnsæ vinnubrögð í opinberri stefnumótun og stjórnsýslu.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK