Myndi bitna á bandarískum neytendum

Við landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó í San Ysidro í Kaliforníu. …
Við landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó í San Ysidro í Kaliforníu. Trump vill byggja múr við landamærin. AFP

Þrátt fyrir að 20% innflutningsskattur á mexíkóskar vörur til Bandaríkjanna gæti auðveldlega fjármagnað bygg­ingu múrs við landa­mæri Banda­ríkj­anna og Mexí­kó myndi fyrirkomulagið skaða bandarísk fyrirtæki og neytendur. Greint er frá þessu í grein á vef CNN.

Í gær greindi fjölmiðlafulltrúi Donalds Trumps, forseta Bandaríkjanna, frá að forsetinn myndi setja 20% innflutningsskatt á allar vörur frá Mexíkó til Bandaríkjanna til þess að fjármagna byggingu múrsins. Hvíta húsið sendi síðar frá sér tilkynningu þar sem það var áréttað að skatturinn væri aðeins einn möguleiki í stöðunni.

Bent er á að Bandaríkin hafi flutt inn vörur frá Mexíkó fyrir 303 milljarða Bandaríkjadali árið 2015 og 20% þess nemur um 60 milljörðum Bandaríkjadala sem að sögn blaðamanns CNN er meira en nóg til þess að greiða fyrir byggingu múrsins.

Sérfræðingar hafa síðan þá sagt að skattar eins og Spicer nefndi væru áhyggjuefni fyrir störf í Bandaríkjunum og vöruverð og að þegar allt kæmi til alls væru það ekki endilega Mexíkóar sem myndu greiða fyrir múrinn.

„Sú hugmynd að 20% skattur væri leið til þess að neyða Mexíkó til þess að greiða fyrir múrinn eru ósannindi. Þetta er leið til þess að láta bandaríska neytendur greiða fyrir múrinn,“ segir Edward Alden, viðskiptafræðingur hjá bandarísku alþjóðatengslanefndinni.

Bendir hann á að um 6 milljón störf í Bandaríkjunum séu háð viðskiptum við Mexíkó og vitnar í verslunarráð Bandaríkjanna. Er það mat sérfræðinga að þau störf yrðu í mikilli hættu yrðu settir skattar á öll vöruviðskipti við Mexíkó.

Þá er líklegt að Bandaríkjamenn þyrftu að greiða hærri gjöld fyrir ýmsar vörur, allt frá bílum og tölvum til lárpera og Corona-bjóra. Einnig er talið að skattarnir myndu hafa töluverð á hrif á fyrirtæki eins og Ford, GM, Walmart og Best Buy.

Bendir hann á að þegar að Barack Obama, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, setti skatta á kínversk dekk, glötuðust færri störf en sköpuðust og verð á dekkum hækkaði töluvert. Skatturinn sem Trump vill setja á mexíkóskar vörur snýr að miklu stærri markaði og því er óttast að afleiðingarnar yrðu alvarlegri.

Sean Spicer, fjölmiðlafulltrúi Trump, greindi frá áætlunum um 20% innfluttningsskatt …
Sean Spicer, fjölmiðlafulltrúi Trump, greindi frá áætlunum um 20% innfluttningsskatt í gær. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka