Samtals þurrkuðust 26,5 milljarðar af markaðsvirði Icelandair Group út í kauphöllinni í dag en gengi hlutabréfa félagsins lækkuðu um 23,9% í verði. Lækkunin varð strax við opnun markaða í morgun en fyrr um daginn hafði Icelandair Group sent frá sér tilkynningu þar sem félagið gerði ráð fyrir því að EBITDA þessa árs verði 60-70 milljónum Bandaríkjadala minni en á síðasta ári.
Fyrri frétt mbl.is: Bréf Icelandair hrynja í verði
Fyrri frétt mbl.s: Ýmsar leiðir til hagræðingar í skoðun
Við lokun markaða í gær kostaði hlutinn í Icelandair Group 22,1 krónu en við lokun markaða í dag var hann á 16,8 krónur. Markaðsvirði félagsins við lokun markaða í gær nam 110,5 milljörðum króna en 84 milljörðum í dag.
Gengi hlutabréfa félagsins hefur ekki verið lægra síðan í lok nóvember 2013 þegar það stóð í 16,75. Verð hlutabréfa félagsins náði hámarki í lok apríl á síðasta ári þegar að hver hlutur kostaði 38,9 krónur. Gengið hélst yfir 30 krónum þar til í lok júní.
Í samtali við mbl.is í morgun sagði Bogi Nils Bogason, framkvæmdastjóri fjármála hjá Icelandair Group að langtímahorfur félagsins væru enn góðar að mati stjórnenda þess og þá eru horfur í hótelstarfsemi Icelandair Group séu góðar sömuleiðis. „En flugrekstur er í eðli sínu mjög sveiflukenndur og ytri þættir geta haft mikil áhrif,“ sagði Bogi í morgun og sagði bæði veikari markað og aukna samkeppni hafa haft áhrif á meðaltekjur félagsins.
Fyrri frétt mbl.is: Veikari markaður og aukin samkeppni
Öll félög í kauphöllinni lækkuðu í dag nema Nýherji og Össur. Þá lækkaði Úrvalsvísitalan um 6,07%.