Bréf Icelandair hrynja í verði

Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 6,05% það sem af er degi. Sömu sögu má segja um flest félög í kauphöllinni en eina félagið sem hefur hækkað er Nýherji.

Mesta lækkunin er hjá Icelandair en þegar þetta er skrifað hafa bréfin lækkað um 22,6% í verði. Þá hafa bréf í Eimskipum lækkað um 4,2%, Marel 2,9%, Össur 5,1% og Reginn 2,5% til dæmis.

Eins og fyrr segir er það aðeins Nýherji sem hefur hækkað í dag en um er að ræða hækkun upp á 4,4%.

Icelandair Group sendi frá sér í gær drög að ársuppgjöri félagsins fyrir síðasta ár. Þar kemur fram EBITDA síðasta árs verði á bilinu 210 til 220 milljónir Bandaríkjadala en miðað við núverandi forsendur gerir félagið ráð fyrir að EBITDA þessa árs verði aðeins 140-150 milljónir Bandaríikjadala.

„Að undanförnu hefur orðið breyting í bókunarflæði Icelandair til hins verra.  Bókanir eru hægari en gert var ráð fyrir og meðalfargjöld á mörkuðum hafa lækkað umfram spár. Þessa þróun má einkum rekja til aukinnar samkeppni en einnig má leiða líkur að því að óvissa vegna breytinga í alþjóðastjórnmálum hafi áhrif á eftirspurn.  Að auki hafa gjaldmiðlar þróast á óhagstæðan máta miðað við fyrra ár, olíuverð hefur hækkað og verkfall í sjávarútvegi hefur neikvæð áhrif á fraktstarfsemi félagsins. Á móti kemur að horfur í hótelstarfsemi Icelandair Group eru góðar,“ segir í tilkynningu Icelandair Group til kauphallarinnar.

Þá segir að þegar hafi verið gripið til ýmissa aðgerða í rekstri samstæðunnar sem gert er ráð fyrir að skili hagræðingu og auknum tekjum. „Áfram er gert ráð fyrir hóflegum innri vexti á árinu, og að mati stjórnenda félagsins eru langtímahorfur þess góðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK