„Við erum að sjá hærri kostnað og lægri meðaltekjur, sem er ekki gott,“ segir Bogi Nils Bogason, framkvæmdastjóri fjármála Icelandair Group en bréf félagsins hafa lækkað töluvert í verði í dag í kjölfar tilkynningar félagsins frá því í morgun.
Fyrri frétt mbl.is: Bréf Icelandair hrynja í verði
Þar kemur fram EBITDA síðasta árs verði á bilinu 210 til 220 milljónir Bandaríkjadala en miðað við núverandi forsendur gerir félagið ráð fyrir að EBITDA þessa árs verði aðeins 140-150 milljónir Bandaríkjadala. Í kjölfar tilkynningarinnar hafa bréf félagsins hríðfallið í verði og þegar þetta er skrifað hafa þau lækkað um 23%.
Í tilkynningunni segir að upp á síðkastið hafi orðið breyting í bókunarflæði Icelandair þar sem bókanir er hægari en gert var ráð fyrir og meðalfjargjöld á mörkuðum lækkað umfram spár.
Bogi bendir á að meirihluti farþega Icelandair séu tengifarþegar á leið milli Norður-Ameríku og Evrópu og að sá markaður vegi þyngst hvað varðar afkomu Icelandair Group. Nú er sá markaður veikari en áður og með aukinni samkeppni hafi verðin lækkað.
„Þá veltum við því fyrir okkur, en getum ekki sannreynt það, hvort að breytingar í alþjóðasamfélaginu upp á síðkastið séu að hafa áhrif á eftirspurn,“ segir Bogi. Hann bætir við að krónan hafi verið að styrkjast og Bandaríkjadalurinn að styrkjast gagnvart Evrópumyntum sem hefur sín áhrif, ef borið er saman við síðasta ár.
Þó eru langtímahorfur félagsins góðar að mati stjórnenda þess og bendir Bogi á að horfur í hótelstarfsemi Icelandair Group séu góðar sömuleiðis.
„En flugrekstur er í eðli sínu mjög sveiflukenndur og ytri þættir geta haft mikil áhrif,“ segir Bogi.
Aðspurður hvort að lægra gengi pundsins hafi haft áhrif, þ.e. að færri Bretar séu að bóka flugferðir en áður segir Bogi að sá markaður skeri sig ekki sérstaklega úr hvað varðar eftirspurnarþáttinn en samkeppnin á þeim markaði er mjög mikil, sætaframboð er mjög mikið, sem hefur áhrif á meðalverð.