Forstjóri ísraelska lyfjafyrirtækisins Teva, Erez Vigodman, er að láta af störfum segir í tilkynningu frá lyfjafyrirtækinu.
Teva Pharmaceutical Industries er stærsta samheitalyfjafyrirtæki heims en í fyrra keypti fyrirtækið Actavis. Í desember var greint frá því að Sigurður Óli Ólafsson hafi látið af starfi forstjóra samheitalyfjasviðs Teva og að hann muni hætta störfum hjá Teva í lok mars. Við starfi hans hefur tekið Dipannkar Bhattacharjee, sem áður gegndi stöðu forstjóra yfir Evrópuhluta samheitalyfjasviðs Teva. Sigurður Óli hafði gegnt forstjórastarfinu hjá Teva frá árinu 2014 og kom þangað frá Actavis.
Markaðsvirði Teva hefur lækkað mjög undanfarið ár en Vigodman hefur verið forstjóri Teva í þrjú ár. Hann segir í tilkynningu að hann telji rétt að láta af störfum núna. Það hafi verið forréttindi að stýra Teva og hann sé stoltur af því sem stjórnendur fyrirtækisins hafa áorkað.
Í tilkynninu kemur fram að stjórnarformaður Teva, Yitzhak Peterburg, tekur tímabundið við sem forstjóri fyrirtækisins.
Samkvæmt ísraelskum fjölmiðlum ákvað stjórn félagsins að krefjast afsagnar Vigomans þar sem ákvarðanir hans fyrir hönd fyrirtækisins að undanförnu hafi dregið úr trú fjárfesta á félaginu.