Ársaðild að vöruhúsi Costco fyrir einstaklinga mun kosta 4.800 krónur á ári og fyrirtækjaaðild 3.800 krónur á ári. Aðgangur að vöruhúsi Costco er aðeins heimild þeim sem eru með aðild og gildir hún í vöruhúsum Costco um allan heim en þau eru 725 talsins.
Þetta er meðal þess sem fram kom á kynningafundi Costco sem fram fór í dag.
Vöruhús Costco í Kauptúni opnar í maí en þegar er hægt að sækja um aðild. Það er óhætt að segja að úrvalið í vöruhúsinu verði fjölbreytt en m.a. verður hægt að fá matvöru, klæðnað, raftæki, útivistarbúnað, verkfæri og heimilisbúnað í versluninni. Þá verður einnig lyfjaverslun, hjólbarðamiðstöð og gleraugnaverslun á staðnum þar sem hægt verður að fá augnskoðun ásamt bakarís og svokallaðs sælkerahorns.
Einnig verður veitingastaður þar sem boðið verður upp á smárétti eins og pylsur og pizzur. Þá munu einungis meðlimir hafa aðgang að eldneytisstöð Costco þar sem selt verður Kirkland Signature eldsneyti. Kirkland Signature er einkamerki Costco en á fundinum í dag kom fram að merkið einkennist af vörum sem kosta minna en sambærilegar vörur.
Costco hér á landi verður rekið af félaginu Costco Wholesale Iceland ehf. sem er í eigu móðurfélagsins Costco Wholesale Corporation. Nú þegar hefur félagið sett 6,2 milljarða í fjárfestingar á Íslandi. „Það er því hægt að segja að við séum komin til að vera,“ sagði Magan Chauhan fjármálastjóri Costco Wholesale UK á fundinum í dag.