Kornið, sem rekur bakarí í Hjallabrekku í Kópavogi, ásamt 12 útsölustöðum á höfuðborgarsvæðinu hefur verið selt til félagsins Investor sem sérhæfir sig í endurskipulagningu og uppbyggingu fyrirtækja. Investor á hluti í fyrirtækjum á Íslandi og erlendis. Aðaleigandi þess er Jóhann Magnússon. Meðal annarra eigenda Investor er Helga Kristín Jóhannsdóttir, sem nú tekur við stöðu framkvæmdastjóra hjá Korninu. Hún starfaði áður sem fyrirtækjaráðgjafi hjá PwC og vörustjóri hjá Marel.
Seljandi Kornsins er Ragnheiður Brynjólfsdóttir en hún stofnaði fyrirtækið ásamt manni sínum, Jóni Þorkatli Rögnvaldssyni árið 1981. Á síðustu árum hefur sonur þeirra, Rögnvaldur Jónsson, séð um rekstur fyrirtækisins.
Kaupverðið er trúnaðarmál. Í ársreikningi Kornsins frá árinu 2015 kemur fram að rekstrartekjur fyrirtækisins hafi numið tæpum 650 milljónum það ár og að hagnaður þess hafi numið 58 milljónum króna. Eignir félagsins námu í árslok 2015 rúmum 110 milljónum króna en skuldir þess voru ríflega 45 milljónir.
Félagið Investor var stofnað árið 2005. Í ársreikningi þess fyrir árið 2015 kemur fram að hagnaður þess hafi numið 254 milljónum króna og að eignir þess hafi í árslok það ár numið 483 milljónum króna. Stærstu eignir þess á þeim tíma voru 50% hlutur í Iðnvélum ehf. og Nelexor Trading Limited.
Helga Kristín segir að nýir eigendur sjái mikið tækifæri með kaupum fyrirtækisins.
„Við teljum grunninn sem fyrirtækið byggist á mjög góðan og við sjáum tækifæri til að byggja það enn frekar upp. Við erum nýtekin við en með haustinu munu viðskiptavinir okkar sjá áherslubreytingar, bæði í formi heildaryfirbragðs, vöruframboðs og þjónustu.“