Eitt prósent hlutafjár í Icelandair Group skipti um hendur í gær. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins eru viðskiptin talin tengjast því að senn líður að aðalfundi félagsins, 3. mars.
Gengið sem miðað var við í viðskiptunum var 16 og því nam andvirði hins keypta hlutar um 800 milljónum króna.
Eins og greint var frá í Morgunblaðinu í síðustu viku leitaði fjárfestir eftir aðstoð Kviku banka um kaup á 3% hlut í félaginu og var miðað við að gengið væri 15 í þeim viðskiptum. Þau kaup gengu ekki eftir þar sem ekki tókst að safna nægjanlegum fjölda söluloforða. Samkvæmt heimildum blaðsins er hér um sama aðila að ræða og var það Kvika banki, sem fyrr, sem annaðist milligöngu viðskiptanna með bréf félagsins.