58,5 milljarða hagnaður hjá bönkunum

Arion banki hagnaðist mest á síðasta ári eða um 21,7 …
Arion banki hagnaðist mest á síðasta ári eða um 21,7 milljarða en Landsbankinn minnst, þ.e. um 16,6 milljarða. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hagnaður stóru viðskiptabankanna þriggja á síðasta ári nam samanlagt 58,5 milljörðum króna miðað við 106,8 milljarða árið 2015. Arion banki hagnaðist mest eða um 21,7 milljarða en Landsbankinn minnst, þ.e. um 16,6 milljarða. Íslandsbanki hagnaðist um 20,2 milljarða. 

Rekstrartekjur bankanna námu samanlagt 154,3 milljörðum króna miðað við 203,1 milljarð árið á undan. Þá námu rekstrargjöld bankanna 85 milljörðum króna í heild miðað við 79,2 milljarða árið á undan.

Eigið fé upp á 640 milljarða

Eigið fé Landsbankans í árslok 2016 nam 251,2 milljörðum króna og var eiginfjárhlutfallið 30,2% af áhættugrunni. Í árslok 2015 var eigið fé bankans 264,5 milljarðar króna.

Arðsemi eigin fjár bankans lækkaði hinsvegar milli ára og var 6,6% árið 2016 miðað við 14,8% 2015.

Þegar það kemur að Arion banka má sjá að eigið fé hans nemur 211 milljörðum í lok síðasta árs miðað við 202 milljarða árið á undan. Eig­in­fjár­hlut­fall bank­ans hef­ur á sama tíma auk­ist, en það var í árs­lok 27,1% en var 24,2% í árs­lok 2015.

Eigið fé Íslandsbanka í árslok nam 178,9 milljörðum króna í árslok 2016 samanborið við 202,2 milljarða króna í árslok 2015. Þá var arðsemi eigin fjár 10,2% samanborið við 10,8% árið 2015.

Alls nam því eigið fé bankanna í árslok 2016 641 milljarði króna.

23 milljarðar í arð

Landsbankinn er eini bankinn sem talar um að greiða til hluthafa í ársreikningi sínum vegna síðasta árs. Þar kemur fram að bankaráð muni leggja til við aðalfund að hluthöfum verði greiddur 13 milljarða króna arður vegna árs­ins 2016 en íslenska ríkið á nú 98,2% í bankanum og aðrir hluthafar 1,8%.

Í ársreikningi Arion banka kemur fram að stjórn bankans leggi til að hagnaðurársins verði færður meðal eiginfjár og að enginn arður verði greiddur á árinu 2017 vegna uppgjörsársins 2016, að svo stöddu.

Á aðalfundi Íslandsbanka verður lagt til að arður fyrir síðasta ári verði 10 milljarðar króna en íslenska ríkið er eini eigandi bankans.

Stjórnendur sáttir

Þegar að orð stjórnenda bankana eru skoðuð má sjá að þeir eru frekar ánægðir með afkomuna á síðasta ári.

Í tilkynningu Landsbankans er haft eftir Hreiðari Bjarnasyni, starfandi bankastjóra að grunnreksturinn hafi gengið vel á síðasta ári og að markaðshlutdeild bankans á einstaklingsmarkaði hafi aldrei mælst hærri. Þá sagði hann stöðu bankans á fyrirtækjamarkaði og á fjármálamörkuðum áfram sterka.

Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka, kallaði afkomuna „viðunandi og í takt við væntingar,“ í tilkynningu. Sagði hann jafnframt grunnstarfsemi bankans standa vel og fjárhagstöðu hans áfram að styrkjast.

Þá segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslansdbanka í tilkynningu að síðasta ár hafi verið mjög gott ár fyrir bankann þar sem grunnrekstur hans hélt áfram að styrkjast og tekjur voru stöðugar.

mbl
Stjórnendur bankanna, Höskuldur, Birna og Hreiðar.
Stjórnendur bankanna, Höskuldur, Birna og Hreiðar.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK