Olíuvinnslan hagkvæm þrátt fyrir lágt olíuverð

Olíuvinnsla í Norðursjó. Heiðar segir verðlækkun við olíurannsóknir og framleiðslu …
Olíuvinnsla í Norðursjó. Heiðar segir verðlækkun við olíurannsóknir og framleiðslu hafa lækkað mikið undanfarin misseri sem leiði til þess að enn sé hagkvæmt að stunda framleiðslu á hafi úti þrátt fyrir lækkandi olíuverð. EPA

Rann­sókn­ar- og vinnslu­kostnaður vegna olíu­leit­ar- og vinnslu hef­ur lækkað um allt að 70% á und­an­förn­um árum. Þetta ger­ir rann­sókn­ir og bor­un hér við land því enn væn­leg­an val­kost þrátt fyr­ir að olíu­verð sé mun lægra en þegar olíu­leit­in var kynnt á sín­um tíma. Þetta seg­ir Heiðar Guðjóns­son, fjár­fest­ir og einn eig­enda Ey­kon, sem leit­ar enn olíu á Dreka­svæðinu ásamt Pet­oro og CNOOC.

Fram­leiðslu­kostnaður lækkað um­fram verðlækk­un

Heiðar nefn­ir að ný olíu­lind hafi fund­ist fyr­ir utan Nor­eg árið 2010 sem fékk nafnið Joh­an Cast­berg olíu­lind­in. Þar hafi menn talið núllpunkt verk­efn­is­ins nást ef heims­markaðsverðið væri um 80 Banda­ríkja­dal­ir. Ný­lega hafi komið til­boð í vinnslu á svæðinu og þá sé miðað við að núllpunkt­ur­inn sé 35-40 dal­ir. Til sam­an­b­urðar er heims­markaðsverðið um 55 dal­ir á tunnu í dag.

Heiðar seg­ir þetta svæði vera svipað langt frá landi og Dreka­svæðið og að jafn­vel sé erfiðara að vinna ol­í­una þar held­ur en hér við land. Fram­leiðsla hér við land ætti því að vera fyr­ir ofan núllpunkt sam­kvæmt þessu seg­ir hann og olíu­vinnsl­an því enn hag­kvæm, enda hafi fram­leiðslu­kostnaður lækkað um­fram verðlækk­un olíu á markaði.

Rann­sókn­ar­kostnaður­inn var aðeins 25-30% af áætl­un

„Kostnaður við bor­un, fram­leiðslu og þjón­ustu hef­ur lækkað gríðarlega og all­ur kostnaður­inn í kring­um olíu­leit­ina,“ seg­ir Heiðar. Hann bend­ir á að hljóðbylgju­mæl­ing­ar Ey­kon og sam­starfsaðila þeirra á Dreka­svæðinu hafi aðeins numið 25-30% af kostnaðaráætl­un sem var gerð 2013, en mæl­ing­arn­ar fóru fram 2015 og 2016.

Heiðar Guðjónsson fjárfestir.
Heiðar Guðjóns­son fjár­fest­ir.

Þetta helg­ast af því að sam­hliða lækk­un olíu­verðs á heims­markaði hafi olíu­fyr­ir­tæki dregið að sér hend­ur og seg­ir Heiðar að leita þurfi aft­ur til seinni heims­styrj­ald­ar­inn­ar til að finna ár þar sem jafn­lít­il olíu­leit var og í fyrra. Fram­boð af borpöll­um, þjón­ustu­skip­um og öðru sem teng­ist olíu­leit hef­ur því verið mun meira en eft­ir­spurn­in og það hef­ur dregið verðið mikið niður að hans sögn.

Hann ít­rek­ar að í þess­um iðnaði þurfi að horfa til langs tíma en ekki hagsveiflna í nokk­ur ár. Þannig seg­ir hann að Norðmenn hafi í dag mikl­ar áhyggj­ur af því að fyr­ir­tæki sem komi að olíu­leit og rann­sókn­um fari á haus­inn við aðstæðurn­ar í dag og við það geti verkþekk­ing og reynsla tap­ast sem hafi verið byggð upp und­an­far­in ár og for­skot Norðmanna í olíu­leit og þjón­ustu á hafi úti farið fyr­ir lítið. „Þetta gæti var­an­lega skaðað iðnaðinn í heild,“ seg­ir Heiðar.

Þrjár hol­ur í staðinn fyr­ir eina

Upp­haf­lega var áformað að bora eina til­rauna­holu, en Heiðar seg­ir að núna sé ráðgert að bora þrjár. Kín­verska fé­lagið CNOOC er eitt þeirra fé­laga sem koma að rann­sókn­inni núna með Ey­kon og seg­ir Heiðar að með því sam­starfi sé fjár­mögn­un þriggja bor­ana tryggð. Ein bor­hola kost­ar um 150-200 millj­ón­ir dala og því er kostnaður við þrjár hol­ur allt að 43 millj­arðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka