Frá því að uppsveifla ferðaþjónustunnar hér á landi hófst árið 2011 hefur vöxtur í farþegaflutningum íslensku flugfélaganna tveggja verið meira en tvöfalt hraðari en meðalvöxturinn í heiminum og meira en þrefalt hraðari en vöxturinn í Evrópusambandinu. Í dag starfa um 2% landsmanna við flugsamgöngur og hefur hlutdeildin vaxið umtalsvert á síðustu árum. Þetta kemur fram í nýrri ferðaþjónustuskýrslu sem Íslandsbanki kynnti í morgun.
Í skýrslunni kemur fram að reiknað sé með því að Icelandair og WOW muni standa undir um 75% af flugframboði um Keflavíkurflugvöll á þessu ári. Þar verði Icelandair stærst með tæplega helming flugframboðs og WOW með tæplega þriðjung.
Þrátt fyrir fjölgun erlendra flugfélaga sem hingað fljúgi þá hafa íslensku félögin tvö skilað bróðurhluta vaxtarins í farþegafjölda. Erlend flugfélög tvöfölduðu framboð sitt á flugi til landsins frá árinu 2013.
Á síðasta ári var easyJet stærst þeirra erlendu flugfélaga sem hingað flugu með um fjórðung af framboði erlendu félaganna. SAS var í öðru sæti yfir framboð erlendra flugfélaga.
Í skýrslunni kemur fram að raunlækkun á flugfargjöldum hingað til lands á undanförnum árum sé ein af helstu ástæðum þess að erlendum ferðamönnum hafi fjölgað til muna. Það skýri einnig mikinn vöxt ferðalaga Íslendinga erlendis.
Til að mæta þessari miklu fjölgun fluga hingað til lands hefur þurft að stækka Keflavíkurflugvöll talsvert og hefur hann tæplega tvöfaldast að stærð og stæðum fjölgað hratt. Í fyrra voru stæðin við völlinn orðin 29 talsins og samkvæmt Isavia er gert ráð fyrir að þeim fjölgi um sjö talsins á næstu tveimur árum.