Ekki mikil breyting fyrir almenning

Gylfi Magnússon, dósent í viðskiptafræði við Háskóla Íslands.
Gylfi Magnússon, dósent í viðskiptafræði við Háskóla Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Öll fjármagnshöft verða afnumin á morgun en dagurinn verður líklega frekar viðburðalítill fyrir almenning þar sem búið er að létta höftum upp að mjög háu hámarki. Áhrifanna gætir frekar á lengri tíma segir Gylfi Magnússon, dósent í viðskiptafræði við Háskóla Íslands. 

Frá og með áramótum hefur verið hægt að eiga viðskipti með erlend verðbréf og taka út erlendan gjaldeyri fyrir allt að 100 milljónir króna. Gylfi bendir á að þetta sé langt umfram það sem venjulegir launþegar séu að ráðstafa í erlendar fjárfestingar og telur hann að haftalosunin muni því ekki hafa mikil áhrif á almenning þegar í stað. „Alla vega ekki í þeim skilningi að fólk verði skyndilega að fara með háar fjárhæðir til útlanda,“ segir hann.

„En auðvitað verður fólk fyrir áhrifum af þessu með öðrum hætti og það skilar sér væntanlegra á lengri tíma,“ segir Gylfi.

„Þetta er ákveðið skref fyrir hagkerfið og mun væntanlega bæta stöðu þess í alþjóðlegu tilliti,“ segir hann og bætir við að rekstrarumhverfi fyrirtækja sem eigi í reglulegum samskiptum við útlönd eða séu þar með rekstur verði mun eðlilegra. „Það er gott fyrir hagkerfið þar sem við þurfum blómlegan þannig geira til þess að ná hagvexti og framförum í efnahagsmálum. Það er jákvætt og mun vonandi skila sér. En það tekur langan tíma að hafa áhrif á lífskjör meðalmannsins.“

Óvíst er hvaða áhrif haftalosun mun hafa á krónuna og …
Óvíst er hvaða áhrif haftalosun mun hafa á krónuna og eru það helstu áhrifin sem aðgerðin hefur á almenning. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Berskjölduð króna

Spurður um möguleg neikvæð áhrif haftalosunar á almenning bendir Gylfi á að krónan verði ekki lengur varin af höftum. „Þetta þýðir í grundvallaratriðum að við verðum með svipað fyrirkomulag og flest nágrannalöndin. Gjaldmiðil sem ekki er varinn af höftum og flýtur upp og niður eftir markaðsöflunum. Krónan er mjög lítill og sögulega séð mjög óstöðugur gjaldmiðill og við ættum að fá einhverjar sveiflur sem hafa auðvitað áhrif á lífskjör og útflutningsatvinnuveginn. Það getur valdið vandræðum fyrir þá sem starfa í þeim geira.“

„Það eru bara helstu ókostir fljótandi gengis sem við stöndum núna berskjölduð frammi fyrir. Ekki mikið öðruvísi hér en annars staðar,“ segir Gylfi Magnússon.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka