David Rockefeller sem fram til þessa hefur verið elsti milljarðamæringur heims er látinn 101 árs að aldri. Eru nú öll barnabörn John D. Rockefeller látin en hann var fyrsti milljarðamæringur Bandaríkjanna og annar stofnenda Standard Oil.
Rockefeller lést á heimili sínu í Pocantico Hills í New York á mánudag sökum hjartabilunar. Hann var erfingi Rockefeller veldisins og hefur í gegnum tíðina gegnt ýmsum störfum. David starfaði lengst af hjá Chase Manhattan bankanum og gegndi ýmsum pólitískum ráðgjafarstörfum. Meðal þeirra er leituðu til hans voru Nelson Mandela og Jimmy Carter.
Hann var þekktur fyrir myndarleg framlög til góðgerðarstarfsemi en árið 2006 gaf hann 225 milljónir Bandaríkjadala til Rockefeller Brothers Fund, samtaka sem stofnuð voru árið 1940, og hafa í gegnum tíðina stutt við ýmis samtök og málefni.
David var einnig mikill listunnandi og átti myndarlegt málverkasafn sem metið var á 500 milljónir Bandaríkjadala. Árið 2005 gaf hann 100 milljónir til listasafnsins Museum of Modern Art, sem móðir hans kom á fót, auk þess að gefa 100 milljónir til heilbrigðisrannsókna í Rockefeller-Háskólanum.
David Rockefeller var metinn á 3,3 milljarða Bandaríkjadala í mars 2017.