Edda Björk Agnarsdóttir hefur tekið við starfi áhættustjóra Íslandssjóða hf. Edda Björk er hagfræðingur frá Háskóla Íslands og hefur starfað hjá Íslandssjóðum frá árinu 2009 en áður starfaði hún hjá Straumi Fjárfestingabanka, JP Morgan Asset Management í London og hjá bandaríska sjóðastýringarfyrirtækinu PIMCO í München.
Þá hefur Kristrún Auður Viðarsdóttir gengið til liðs við Íslandssjóði og fer fyrir viðskiptaþróun félagsins. Kristrún er tölvunarfræðingur með meistaragráðu í upplýsingakerfum og MBA frá Boston University. Kristrún hefur undanfarin ár verið búsett í Hollandi þar sem hún sinnti ráðgjafaverkefnum í upplýsingatækni en áður starfaði Kristrún á skrifstofu bankastjóra Íslandsbanka, leiddi viðskiptaþróun hjá VÍB, eignastýringu Íslandsbanka og starfaði hjá Citigroup Wealth Management í New York og London.
Edda Björk og Kristrún Auður eru með löggildingu í verðbréfamiðlun.
„Það er alltaf gleðilegt að fá öfluga liðsmenn inn í okkar sterka hóp. Það er sérlega ánægjulegt að fá tvær konur í stjórnendahópinn og auka þar með fjölbreytnina. Reynslan sýnir okkur að bestur árangur næst í blönduðum hópi þar sem ólík sjónarmið fá að njóta sín. Við fögnum þessu því mjög, bæði strákarnir og stelpurnar,“ er haft eftir Kjartani Smára Höskuldssyni, framkvæmdastjóra Íslandssjóða, í tilkynningu.
Íslandssjóðir hf. er elsta sjóðastýringarfyrirtæki landsins og er að fullu í eigu Íslandsbanka. 29 verðbréfa- og fjárfestingarsjóðir eru reknir af félaginu og eru starfsmenn Íslandssjóða 15 talsins, fimm konur og tíu karlar.