Fyrrverandi bankastjóri bandaríska bankans Wells Fargo þarf að skila launagreiðslum upp á 28 milljónir Bandaríkjadala eða jafnvirði rúmlega 3 milljarða íslenskra króna. Annar fyrrverandi yfirmaður hefur misst hlutabréf fyrir 47 milljónir Bandaríkjadala.
Fyrrverandi bankastjóri bankans, John Stumpf, sagði af sér á síðasta ári eftir að það kom í ljós að bankinn hefði stofnað tvær milljónir reikninga án vitundar viðskiptavina til þess að ýta undir sölutölur. Bankinn var sakaður um alvarlegt lögbrot og sektaður.
Stumpf hefur alls skilað 69 milljónum Bandaríkjadala eða um 7,7 milljörðum íslenskra króna og hinn yfirmaðurinn Carrie Tolstedt 67 milljónum Bandaríkjadala.
Wells Fargo hefur nú gefið út 110 síðna skýrslu um ástæður hneykslisins. Þar kemur m.a. fram að Stumpf hafi ekki verið nógu fljótur að láta rannsaka söluhegðun starfsmanna og gert lítið úr alvarleika málsins. Þá er Tolstedt sökuð um að hafa ekki viljað horfast í augu við vandamál eða heyra um neikvæðar upplýsingar.
Lögmenn Tolstedt hafa mótmælt niðurstöðu skýrslunnar og „tilraunum hennar til þess að kenna Tolstedt um“.
Sagði lögmaðurinn Enu Mainigi að „heildstæð og sanngjörn rannsókn“ muni leiða annað í ljós.
Bandaríska fjármálaeftirlitið sektaði Wells Fargo um 185 milljónir Bandaríkjadali eða um 20 milljarða íslenskra króna á síðasta ári vegna málsins. Þá hefur bankinn þurft að greiða viðskiptavinum 110 milljónir Bandaríkjadala til þess að forðast málsóknir.