Íbúðaverð eins og árið 2007

Kort/mbl.is

Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu er nánast hið sama að raunvirði og þegar það var í hæstu hæðum árið 2007. Það munar einungis 1% um þessar mundir en fasteignaverð hefur hækkað um 21% á síðustu tólf mánuðum. Framboð af auglýstum fasteignum til sölu hefur dregist hratt saman á undanförnum árum. Árið 2010, þegar best lét, voru 4.188 eignir að meðaltali auglýstar til sölu. Í mars var fjöldinn 800, samkvæmt gögnum Seðlabankans.

Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur hjá greiningardeild Arion banka, segist vera nokkuð uggandi yfir þróuninni. „Í upphafi árs reiknuðum við með því að fasteignaverð myndi hækka um tæplega 30% til loka árs 2019. Stór hluti af spánni hefur þegar raungerst,“ segir hann í samtali við ViðskiptaMoggann.

Tengslin hafa rofnað

Hann rekur hækkanir á markaði til þess að framboð hafi dregist saman og að fjárhagur heimilanna hafi batnað, laun hækkað og veðrými aukist. „Heimilin hafa því bolmagn til að greiða hærra verð fyrir fasteignir. Það sem hefur einkennt þróunina síðustu mánuði er að tengsl milli launaþróunar og húsnæðisverðs hafa rofnað. Húsnæðið hefur hækkað mun hraðar en laun. Við teljum að það sé vegna þess að skortur er á húsnæði. Það sem sömuleiðis styður þá kenningu er að leiguverð er farið að hækka hraðar en áður. Það hækkar nú hraðar en laun,“ segir hann.

Umtalsverð íbúðafjárfesting er í kortunum, að sögn Konráðs, og nefnir að líklega muni draga úr húsnæðisskorti á næsta ári, en þangað til er líklegt að skorturinn muni aukast. „Á liðnu ári var íbúðafjárfesting meiri en við gerðum ráð fyrir sem gefur góð fyrirheit um að sú fjárfesting muni taka hraðar við sér en væntingar stóðu til. Ríkulegar hækkanir á fasteignamarkaði hvetja til þess að meira verði byggt af íbúðarhúsnæði,“ segir hann.

Þórarinn M. Friðgeirsson, sölustjóri hjá Eignamiðlun, segir að það gangi mun hraðar fyrir sig að selja fasteign um þessar mundir en í langan tíma. Góð sala, þar sem seljandi fær hæsta mögulega verðið tekur að jafnaði tvær til fjórar vikur. Hann nefnir í þessu samhengi að í síðustu viku hafi þrjár eignir selst hjá Eignamiðlun áður en efnt hafi verið til opins húss. Kaupendur, einkum þeir sem hafi misst af nokkrum eignum, eigi það til að yfirbjóða í eignir. Aðrir sæti lagi vegna hækkana á markaði og verðleggi eignir nokkuð hærra en fasteignasalar ráðleggi. „Slíkar eignir seljast oft ekki í dag en þær getu selst eftir tvo mánuði,“ segir hann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK