Metár í magni en bændum fækkar

Kúabændum fækkar á sama tíma og framleitt er meira af …
Kúabændum fækkar á sama tíma og framleitt er meira af mjólk. mbl.is/Árni Sæberg

Algjört metár var í mjólkurframleiðslu á síðasta ári þegar framleiddar voru um 150 milljónir mjólkurlítra. Hefur ársframleiðslan aukist um einhverjar 25 milljónir lítra á tíu árum, og það á sama tíma og kúabændum hefur fækkað ár frá ári.

Á síðasta ári fækkaði kúabændum óvenjulega mikið og er búist við að þeim fækki aftur töluvert á þessu ári. Mun tveggja ára fækkun kúabænda nema um 15 prósentum gangi spár eftir. Í byrjun síðasta árs voru kúabændur um 584 talsins, í ársbyrjun þessa árs um 546 og er búist við að þeir verði um 500 í lok ársins.

Miklar breytingar á regluverki

Fækkunina má einkum rekja til tveggja þátta, segir Garðar Eiríksson, framkvæmdastjóri Auðhumlu, aðaleiganda Mjólkursamsölunnar. Annars vegar svokölluð aðbúnaðarreglugerð sem tók gildi í október á síðasta ári, en reglugerðarbreytingin kallar á fjárfestingu í búnaði til að verða við nýjum kröfum í mjólkurframleiðslu. Segir Garðar að fullorðnir bændur eða smærri bændur hafi margir talið það ekki borga sig að fjárfesta í bættum tækjakosti.

Garðar Eiríksson, framkvæmdastjóri Auðhumlu.
Garðar Eiríksson, framkvæmdastjóri Auðhumlu. mbl.is

Um síðustu áramót tók einnig í gildi nýtt innlausnarfyrirkomulag sem felur í sér að bændur skila inn því greiðslumarki sem þeir nýta ekki til mjólkurframleiðslu og úthlutar Matvælastofnun því á nýjan leik. Á síðasta ári var hins vegar kvótamarkaður þar sem menn gátu selt kvótann á markaðsverði sem er hærra en það sem Matvælastofnun býður og ákváðu þess vegna einhverjir að selja kvótann á síðasta ári áður en breytingarnar tóku gildi, útskýrir Garðar.

En þrátt fyrir að framleiðendum hafi stöðugt fækkað í gegnum árin hefur mjólkurframleiðsla hér á landi aukist. Garðar segir það mega útskýra með tæknivæðingu fjósa og ræktunarstarfi bænda, sem sé að skila sér. „Þegar ég var pjakkur í sveit fyrir hálfri öld voru tvö til þrjú þúsund lítrar það hámark sem kýr mjólkuðu, en nú eru það fimm til sex þúsund lítrar að jafnaði,“ segir hann en dæmi eru um að mjólkurmestu kýrnar mjólki allt að 12 til 13 þúsund lítra á ári.

Fjós. Mynd úr safni.
Fjós. Mynd úr safni. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Að sögn Garðars hefur mikil hagræðing fylgt tækniframförum í mjólkurframleiðslu og landbúnaði og hefur hagræðingin skilað sér að mestu til neytenda, eða tveir þriðju hlutar, en einn þriðji hluti hagræðingarinnar skilað sér í vasa bænda.

Viðsnúningur var í rekstri Mjólkursamsölunnar á síðasta ári og fór MS frá því að tapa 137 milljónum árið 2015 yfir í 364 milljóna króna hagnað árið 2016. Garðar segir að markaðssókn íslenska skyrsins á erlenda markaði skýri um helming þessa viðsnúnings, en hinn helminginn megi að verulegu leyti rekja til fjölgunar erlendra ferðamanna vegna stóraukinnar sölu til stærri eldhúsa og veitingahúsa.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK