Grikkir hafa náð bráðabirgðasamkomulagi við lánardrottna sína sem ætti að greiða götu viðræðna um fjármál landsins.
„Viðræðunum er lokið,“ sagði Euclid Tsakalotos, fjármálaráðherra Grikklands, við fréttamenn að loknum fundi í nótt. Um er að ræða bráðabirgðasamkomulag um tæknileg atriði en fjármálaráðherrar evru-ríkjanna munu ræða framhaldið 22. maí og samþykkja samkomulagið formlega.
Tsakalotos segist sannfærður um að samkomulagið muni gera Grikkjum kleift að tryggja samkomulag varðandi skuldir landsins við skuldunauta sem sé nauðsynlegt á erfiðri leið gríska efnahagslífsins til bata.
Samkomulag er nauðsynlegt til þess að Grikkir fái frekara lán svo þeir geti staðið við skuldbindingar sínar upp á 7 milljarða evra í júlí.
Vegna þrýstings frá helstu lánardrottnum (Evrópusambandinu, Seðlabanka Evrópu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum) samþykkti ríkisstjórn Grikklands fyrr í mánuðinum að draga enn frekar úr ríkisútgjöldum sem nemur 3,6 milljörðum evra á árunum 2019 og 2020.
Meðal annars verður lífeyrir lækkaður að meðaltali um 9%. Jafnframt er gert ráð fyrir breytingum á skattkerfinu.
Skuldir ríkissjóðs námu í tæplega 315 milljörðum evra í lok árs sem er 179% af tekjum hans. Er það enn hærra hlutfall en árið á undan þegar það var 177,5%.
Yfir 10 þúsund manns tóku þátt í mótmælum vegna fyrirhugaðs niðurskurðar í gær og boðað hefur verið til allsherjarverkfalls 17. maí.