Skoðast ef Karl verður gjaldþrota

Karl Emil Wernersson. Lyf og Heilsa er komið í eigu …
Karl Emil Wernersson. Lyf og Heilsa er komið í eigu 22 ára sonar hans. mbl.is/Jim Smart

Um tíu milljarða króna skuld Karls- og Steingríms Wernerssona og Guðmundar Ólasonar er gjaldfallin eftir að dómur héraðsdóms Reykjavíkur féll í mars og er nú í innheimtuferli. Verði dóminum áfrýjað frestast þó innheimtan. Þetta staðfestir skiptastjóri þrotabús Milestone í samtali við mbl en RÚV greindi fyrst frá málinu.

Þremenningarnir voru 8. mars sl. dæmdir til að greiða þrota­­búi Milest­one 5,2 millj­­arða auk vaxta og verðbóta vegna milli­­­færsla sem voru gerðar á reikn­ing Ing­unn­ar Wern­er­s­dótt­­ur, syst­ur bræðranna. Frestur til áfrýjunar til Hæstaréttar er þó til 8. júní og gætu innheimtuaðgerðir frestast ef það verður gert.

Verði hins vegar innheimtan árangurslaus má telja líklegt að Karl verði úrskurðaður gjaldþrota. Líkt og fram kom í fréttum RÚV í gær er lyfjaverslunarkeðjan Lyf og Heilsa komin í hendur 22 ára sonar Karls en eignarhaldinu var breytt í kjölfar þess að Karl var dæmdur í fangelsi í Hæstarétti í apríl í fyrra. Þá eignaðist sonurinn einnig heimili Karls á Arnarnesi, bifreiðar og aðra hluti í fyrirtækjum.

Skiptastjóri þrotabús Milestone segist engar upplýsingar hafa um hvað greitt hafi verið fyrir hlutinn.

Verði Karl úrskurðaður gjaldþrota í kjölfar innheimtuaðgerða þrotabús Milestone verður skiptastjóri skipaður yfir þrotabúi Karls Wernerssonar sem myndi þar af leiðandi fara yfir eignatilfærsluna á Lyf og Heilsu til sonar hans. Teljist hún ótilhlýðileg er hún riftanleg samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti en samkvæmt hegningarlögum getur slíkt varðað allt að sex ára fangelsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK