„Hér vantar okkur ferðamenn“

Ívar Ingimundarson rekur ferðaþjónustuna Óseyri á Egilsstöðum.
Ívar Ingimundarson rekur ferðaþjónustuna Óseyri á Egilsstöðum. Samsett mynd

Ívar Ingimarsson, fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu og eigandi gistihúss á Egilsstöðum telur að rekstri fyrirtækja á svæðinu verði stefnt í hættu með fyrirhugaðri hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu. „Hér vantar okkur ferðamenn til að geta rekið fyrirtækin með góðum hætti allt árið og fjölgað heilsársstörfum,“ segir í erindi Ívars til bæjarráðs Fljótsdalshéraðs.

Bæjarráð hefur samþykkt að fela bæjarstjóra að óska eftir fundi með fjármálaráðherra og ráðherra ferðamála til að ræða mögulegar mótvægisaðgerðir sem styrkt gætu greinina á Austurlandi.

Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, segist ætla óska eftir fundi með ráðherrum ef bókunin verður samþykkt á bæjarstjórnarfundi í næstu viku. „Menn hafa miklar áhyggjur og það er ekkert af ósekju. Því ef að menn eru að sjá fyrir sér, eins og hefur komið fram í umræðunni, að þetta muni leiða til samdráttar er mjög trúlegt að það muni fyrst og fremst bitna á jaðarsvæðum þar sem aukningin hefur ekki verið í takti við álagssvæði,“ segir Björn í samtali við mbl.is.

Hvað mögulegar mótvægisaðgerðir varðar segir hann að mögulega mætti mæta þessu með öðrum lækkuðum álögum líkt og lækkun á tryggingargjaldi eða skattaívilnunum.

Segist Björn hafa skynjað sambærilegar áhyggjur á fleiri svæðum á landsbyggðinni.

Ekki er hægt að líkja saman aðstæðum í rekstri fyrirtækja …
Ekki er hægt að líkja saman aðstæðum í rekstri fyrirtækja í ferðaþjónustu á Austurlandi og hjá fyrirtækjum á álagssvæðum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Aðstæður ekki sambærilegar

Í erindi Ívars er bent á að 97,5% allra ferðamana komi inn til Íslands á Keflavíkurflugvelli og að einungis  27% þeirra koma til Austurlands. Á veturna sé hlutfallið einungis 10%. Segir hann að nýting hótela í heilsársrekstri á svæðinu væri komið undir 20% í fimm til sex mánuði á ári. Vegna þessa sé á engan hátt hægt að líkja þeirra aðstæðum við rekstur svipaðra fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu.

Segir Ívar að aðilar Samtaka ferðaþjónustunnar á Austurlandi hafi komið áhyggjum sínum til skila til fjármálaráðherra. Þar hafi mótvægisaðgerðir komið til tals. „Við bentum á að í dag væri ekki verið að setja neina alvöru peninga af ríkisins hálfu í að kynna Egilsstaðaflugvöll og Austurland sem áfangastað en slíkt væri lykilatriði til að auðvelda ferðamönnum að komast inn á svæðið og stuðla að hámarksdreifingu þeirra um landið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka