Höfuðstöðvum Landsbankans verður ekki breytt í hótel

Höfuðstöðvar Landsbankans við Austurstræti.
Höfuðstöðvar Landsbankans við Austurstræti. mbl.is/Árni Sæberg

Húsnæði höfuðstöðva Landsbankans við Austurstræti verður ekki breytt í hótel þegar bankinn flytur í nýjar höfuðstöðvar sínar við Austurhöfn. Þetta segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, í samtali við mbl.is. „Borgin er búin að setja hótelkvóta á alla Kvosina þannig að það er búið að girða fyrir það að þarna verði hótel,“ segir Dagur.

Hann hefur ekki heyrt af ráðleggingum bankans með húsnæðið en það er mikilvægt að standa vel að því hvað kemur þar í staðinn.

Bankaráð Lands­bank­ans tilkynnti í vikunni ákvörðun sína um að byggja hús­næði fyr­ir starf­semi bank­ans við Aust­ur­höfn í Reykja­vík. Bank­inn mun nýta um 10.000 m2 í nýju húsi, um 60% af flat­ar­máli húss­ins, en selja eða leigja frá sér um 6.500 m2 sem munu nýt­ast fyr­ir versl­un og aðra þjón­ustu.

Dagur fagnar áætlunum bankans á Austurhöfn. „Það er einnig mikilvægt að eyða óvissunni varðandi holuna við Hörpu og þau áform. Svo er líka jákvætt að bankinn telji sig þurfa færri fermetra og þá verður meira eftir fyrir verslanir og veitingastaði á jarðhæð og jafnvel annarri hæð.“

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í fyrra kom upp sú hugmynd að Listaháskóli Íslands flytti í húsnæðið í Austurstræti þegar bankinn flytti. Dagur segir að það gæti enn verið möguleiki. „Þegar sú hugmynd kom fram á sínum tíma fannst mér hún spennandi og áhugaverð. En ég veit ekki hvaða fyrirætlanir eru í gangi núna. En það er nú einhver tími til stefnu, bankinn flytur ekki á morgun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka