Erfiðara verður fyrir fyrirtæki að komast undan skattlagningu í einu landi og færa yfir í hitt með nýjum fjölþjóðasamningi sem fjármálaráðherra undirritar í París í dag.
Samningurinn miðar að því að stemma stigu við skattaundandrætti og skattsvikum með misnotkun tvísköttunarsamninga.
„Þessi samningur mun ganga lengra en einstakir tvísköttunarsamningar sem gerir það erfiðara og vonandi ómögulegt fyrir fyrirtæki að smokra sér undan skattlagningu í einu landi og færa yfir í hitt landið til að spara sér skattana,“ segir Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, í samtali við mbl.is.
Yfir 100 ríki hafa gerst aðilar að samningnum og undirrita 68 þeirra hann í dag í tengslum við ráðherrafund Efnahags- og framafarastofnunarinnar (OECD).
Benedikt segir þennan fjölþjóðasamning mjög jákvæðan og muni vonandi loka smugunum sem hafa verið í tvísköttunarsamningum hingað til. „Þetta er mjög jákvætt en samningurinn leggur meiri áherslu á að menn verði að borga skattana í upprunalandi vinnunnar eða verðmætanna.“