Agnes Bragadóttir
Danmörk er í fyrsta sæti 128 ríkja heims í vísitölu félagslegra framfara, VFF, sem stofnunin Social Progress Imperative (SPI) reiknar út. Fast á hæla Danmerkur koma hin Norðurlöndin, Finnland í öðru sæti, Ísland og Noregur deila þriðja sætinu og í áttunda sæti er Svíþjóð.
Niðurstöður SPI í rannsóknum stofnunarinnar verða kynntar í dag.
Michael Green, forstjóri Social Progress Imperative, segir í samtali við Morgunblaðið, að ef stjórnvöld í hverju landi hugsi aðeins um aukinn hagvöxt og aukna landsframleiðslu og vinni bara út frá því séu þau ekki á réttri braut.
„Það er ekki hægt að móta stefnu til framtíðar án þess að leggja ríka áherslu á félagslegar framfarir, meðfram áherslu á aukinn hagvöxt,“ sagði Green.
Green segir það ánægjulegt hversu hátt skor Ísland fær í rannsókninni og óskar landsmönnum til hamingju með það.
Ísland er í fyrsta sæti allra landanna þegar kemur að umburðarlyndi og aðgengi. Mismunun og ofbeldi gagnvart minnihlutahópum mælist hér minnst á heimsvísu.