Akstur hópbifreiða í miðbænum óheimill frá og með 15. júlí

Hópferðabílum verður óheimilt að aka innan skyggða reitsins á myndinni …
Hópferðabílum verður óheimilt að aka innan skyggða reitsins á myndinni frá og með 15. júlí næstkomandi. Mynd/Reykjavíkurborg

Frá og með 15. júlí verður hópbifreiðum óheimilt að aka um ákveðnar götur í miðbænum. Þó verður heimilt að aka um Lækjargötu. Akstursbannið gildir fyrir hópbifreiðar án stærðartakmarkana og einnig verður sérútbúnum bifreiðum, t.d. til fjallaferða, óheimilt að aka innan bannsvæðis. Undanþegin banni eru m.a. ökutæki merkt Reykjavíkurborg, skólabifreiðar og akstursþjónusta fatlaðra sem fellur undir lög um málefni fatlaðs fólks.

Greint er frá þessu á vef Reykjavíkurborgar.

Í mars voru kynntar tillögur stýrihóps brogarinnar sem átti að þróa og leggja fram tillögu að stefnu um akstur með ferðamenn um miðborgina. Í stýri­hóp­inn voru skipuð þau Gísli Garðars­son, Hjálm­ar Sveins­son og Hild­ur Sverr­is­dótt­ir. Hall­dór Hall­dórs­son tók sæti Hild­ar í hópn­um í byrj­un mars þegar að Hild­ur tók sæti á þingi.

Reglurnar voru síðan samþykktar í umhverfis- og skipulagsráði 3. maí og í borgarráði 11. maí.

Á vef Reykjavíkurborgar segir að með skilgreindum akstursleiðum er akstursskipulag rútufyrirtækja einfaldað. Hópbifreiðar með ferðamenn eiga að aka um valdar götur, ekið verður upp Eiríksgötu og niður Njarðargötu, upp Ingólfsstræti og Hverfisgötu. Þá verður ekið austur Túngötu og Vonarstræti. Umferð hópbifreiða er heimil í báðar áttir á öðrum akstursleiðum sem sýndar eru á meðfylgandi mynd.

Þá verða safnstæði á 12 stöðum í miðborginni en stæðum við Tryggvagötu, Snorrabraut og Austurbæ verður komið fyrir á næstu vikum. Þá verða stæði við Safnahúsið og Höfðatorg stækkuð. Núverandi og ný stæði verða merkt með skýrum hætti. Kannaður verður grundvöllur þess að koma fyrir biðskýlum á völdum stöðum þegar reynsla er komin á notkun safnstæðanna.

Safnstæði á Hverfisgötu.
Safnstæði á Hverfisgötu. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Á vefnum busstop.is er hægt að sjá yfirlit yfir safnstæðin. Vefurinn er í vinnslu en hægt verður að þysja inn til að sjá nánari staðsetningu stæðanna. Eins verður hægt að sjá mynd af rútustaur hvers safnstæðis og nærumhverfi til að auðvelda ferðamönnum að finna safnstæðin. Ferðamenn með snjallsíma með GPS geta auk þess séð hvar þeir eru staddir og fengið leiðsögn á safnstæði í símann. Á vefnum verður hægt að hala niður korti af stæðunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK