Ísland er þriðja besta landi í heimi, ásamt Noregi, samkvæmt svokallaðri vísitölu félagslegra framfara, sem byggir á þremur meginstoðum; grunnþörfum einstaklinga, undirstöðum lífsgæða og tækifærum fólks. Þetta kemur fram í niðurstöðum alþjóðlegrar skýrslu sem nær til 128 landa og byggir á greiningu gagna úr fjölmörgum gagnabönkum innan landanna.
Danmörk er besta land í heimi, samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar, Finnland er í öðru sæti, en Svíþjóð er í því áttunda.
Í skýrslunni, sem gerð var opinber í dag, kemur fram að Íslendingar eru almennt mjög umburðarlyndir, til að mynda gagnvart hinum ýmsu trúarbrögðum og minnihlutahópum, en þar er Ísland í fyrsta sæti. Þá er mismunun og ofbeldi gagnvart minnihlutahópum hvergi minna en hér á landi. Öryggisnet samfélagsins er jafnframt mjög gott.
Ísland er í fimmta sæti þegar kemur að aðgengi og miðlun upplýsinga. Yfir 98 prósent þjóðarinnar notar netið að staðaldri og fjöldi farsímareikninga á hverja 100 Íslendinga er 100.
Helsti veikleiki Íslands er umhverfisþáttur vísitölunnar, þar sem við erum heilt yfir í 25. sæti af 128 þjóðum. Ákveðnir þættir setja Ísland þó enn neðar á listann. Má þennan veikleika helst rekja til mikillar fjölgunar ferðamanna.
Mælikvarði vísitölu félagslegra framfara er fimm ára og því er hægt að bera saman tölur síðustu ára. Vísitalan í ár dregur saman tímabilið 2014 til 2017. Ísland hefur alltaf verið í einu af efstu tíu sætum listans.
Vísitalan er tekin saman af Social Progress Imperative (SPI), sem er sjálfstæð stofnun, starfandi í Washington. Um er að ræða samstarfsverkefni ólíkra aðila sem þróað hafa áðurnefndan mælikvarða. Forsætisráðuneytið, Arion banki og Deloitte hafa stutt við verkefni í tengslum við mælikvarðann hér á landi.
„Með vísitölunni er verið að mæla uppbyggingu samfélagsins, hvernig fólkinu í landinu líður og hvaða innviðir eru eru staðar, byggða á þremur stoðum; grunnþörfum einstaklingsins, undirstöðum lífsgæða og tækifærum fólks. Allt er þetta mælt út frá einstaklingnum og dregur saman ákveðnar staðreyndir sem koma úr mörgum gagnabönkum og endurspegla þessa mynd,“ segir að sögn Rósbjörg Jónsdóttir, einn fulltrúi Íslands í SPI-teyminu.
„Þetta gefur okkur tiltölulega skýra mynd af því hvernig samfélagið hefur þróast og er byggt upp, enda erum við borin saman við þær þjóðir sem hafa sambærilega verga landframleiðslu á hvern íbúa hvers lands. Því hærra sem við skorum í ákveðnum þætti, því betur erum við að nýta tekjur til að gera gott samfélag betra.“
Rósbjörg segir vísitölu félagslegra framfara í raun vera hina hliðina á peningnum þegar kemur að vergri landsframleiðslu og fjallar um það sem snýr að hinum mannlega þætti samfélaga. Hún bendir hins vegar á að niðurstöður skýrslunnar séu langt frá því að vera heilagar. Í raun sé frekar um að ræða vinnutól og upplýsingar um hvernig megi nýta það til að gera hlutina betur.
Niðurstöður langflestra mælinga á kvarðanum sýna að Ísland er á pari við þau 15 lönd sem við berum okkur saman við. Gulur depill á svokölluðu mælaborði eða skorkorti, sem sjá má hér fyrir neðan, gefur það til kynna. Blár depill gefur til kynna að stöndum okkur betur en samanburðarþjóðirnar, en rauður depill segir að við stöndum okkur verr.
Tilgangur mælikvarðans er meðal annars er að sýna fram á hvernig er hægt að byggja upp samfélag þjóða og hver heimsmarkmið þessara þjóða eru, að sögn Rósbjargar. „Þetta eru auðvitað bara markmið og ekkert sem segir okkur að við getum náð þeim. Niðurstöðurnar í þessari úttekt endurspegla það að heimurinn sem heild þarf að taka sig verulega á til þess að ná þessum heimsmarkmiðum.“
Í skýrslunni kemur til að mynda fram að persónuleg réttindi almennra borgara, á borð við pólitísk réttindi og málfrelsi, hafi minnkað í fleiri ríkjum en þau hafa aukist á síðustu fjórum árum, og er það mikið áhyggjuefni. „Maður hefði viljað sjá eitthvað annað en þetta gerast,“ segir Rósbjörg.