„Þetta snýst um að taka hófstillt gjald fyrir góða þjónustu,“ segir Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu, um ákvörðun þess efnis að rukka fyrir ferðir um tónlistarhúsið og notkun á snyrtingum fyrir aðra en þá sem eiga erindi á viðburði, fundi, ráðstefnur eða veitingastaði í húsinu.
Býðst fólki nú að greiða 1.500 krónur fyrir skipulagðar skoðunarferðir um húsið sem farnar eru á klukkutíma fresti frá klukkan 10 á morgnanna til 5 á daginn. Farið er upp á hæðir hússins og inn í sali, en um leið fjallað um sögu hússins og arkitektúr að sögn Svanhildar. Hún segir jarðhæð hússins þó enn vera opna gestum og gangandi.
Að sögn Svanhildar er um að ræða tilraunaverkefni í sumar, sem farið var af stað með til að bregðast við því að ferðamenn nýti sér opnu rými hússins sem „nokkurs konar umferðarmiðstöð eða hvíldarstað,“ eins og sagði í tilkynningu frá Hörpu vegna málsins fyrr í mánuðinum.
Í ferðinni felst hálftíma fræðsla um húsið, en eftir það fær fólk tækifæri til að skoða sig um sjálft og taka myndir að sögn Svanhildar.
Þá eru 300 krónur nú rukkaðar inn á salerni á neðstu hæð hússins, en Svanhildur segir það vera sama gjald og á aðrar snyrtingar í miðborginni t.d. í bílahúsinu í Vesturgötu. „Þessar snyrtingar hafa verið gífurlega mikið notaðar og við höfum verið að fá heilu rútufarmana af fólki sem hefur verið að nýta þetta endurgjaldslaust,“ segir Svanhildur. Þá bætir hún við að fyrir þá sem eiga erindi á viðburði, fundi, ráðstefnur eða veitingastaði í húsinu séu salerni enn endurgjaldslaus þjónusta.
Svanhildur segir verkefnið fara vel af stað, og um 200 manns fari nú í skoðunarferðir um húsið daglega.
Harpa vermir ásamt Hallgrímskirkju efsta sætið yfir mest sóttu staði Reykjavíkur en í sumar er áætlað að hátt í 3000 gestir sæki húsið daglega heim.