Samkeppniseftirlit Evrópusambandsins hefur sektað bandaríska stórfyrirtækið Google um 2,4 milljarða evra, en um er að ræða hæstu sekt sem fyrirtæki hefur verið gert að greiða í Evrópu. Úrskurður þess efnis var birtur í dag.
Margrethe Vestager, samkeppnisstjóri Evrópusambandsins, sagði í yfirlýsingu í dag að Google hefði misnotað markaðsráðandi stöðu sína með því að setja eigin netverslanir í forgang þegar leitað er í leitarvél fyrirtækisins þrátt fyrir að bjóða ekki upp á besta verðið líkt og leitað er að.
„Það sem Google gerir er ólöglegt samkvæmt samkeppnisreglum ESB. Það hindraði önnur fyrirtæki frá því að geta keppt fyrir eigin verðleikum og nýsköpun,“ sagði Vestager í yfirlýsingunni. „Og það sem mikilvægast er; það hindraði evrópska neytendur frá því að eiga raunverulegt val um þjónustu.“
Fyrra metið var í eigu bandaríska örgjörvaframleiðandans Intel frá árinu 2009 og er upp á 1,06 milljarða evra. Þrátt fyrir háa sekt er talið að annað muni hafa meiri áhrif á starfsemi Google í Evrópu því samkeppnisyfirvöld munu krefjast þess að Google breyti viðskiptaháttum sínum í Evrópu þannig að þeir falli að reglum ESB.
Þrátt fyrir að það yrði hæsta sekt sem samkeppnisyfirvöld ESB hafa lagt á fyrirtæki þá er þetta langt frá hámarkinu sem er 8 milljarðar evra, eða 10% af veltu Google í fyrra.