Bjarki Pétursson, frá rannsóknar- og markaðsfyrtækinu Zenter telur að sum fyrirtæki séu búin að missa allt að 30% af veltu sinni frá opnun Costco en hann var gestur í Magasíninu á K100 í gær. Þar sagði hann að nú þyrftu Íslendingar að átta sig á heildarmyndinni og minna sig á að innlendar verslanir geta skipt okkur Íslendinga meira máli til lengri tíma litið.
Í skýrslu sem Zenter vann á síðasta ári kom fram að opnun verslunar Costco á Íslandi myndi hafa hafa veruleg áhrif á rekstur innflutningsfyrirtækja og heildsala hér á landi. Nú þegar um mánuður er liðinn frá opnun segir Bjarki að mörg íslensk fyrirtæki hafi misst allt að þrjátíu prósent veltu sinnar, enda hafi þau vanmetið opnun Costco og sumir pollrólegir þremur vikum fyrir opnun.
„Þeir eru ekki rólegir í dag. Ég gæti trúið að þeir væru búnir að missa svona 25-30% af veltunni sinni. Þannig að það er ótrúlega sorglegt,“ sagði Bjarki. Spurður hvort að aðsóknin sé ekki aðeins nýja brumið var Bjarki ekki viss um það.
„Við spáum því að það sé ekki og fyrir því eru fjölmörg rök. Þetta er annað stærsta verslunarfyrirtæki í heimi, þeir eru stærsti vínsali í heimi, á þessu ári verða þeir sennilega stærsti bílasali í Bandaríkjunum. Förum fimm ár fram í tímann, hvar verður Costco þá. Munu þeir reka stærstu ferðasölu á Íslandi, munu þeir selja tryggingar eins og þeir gera í Bandaríkjuum, mun vínið verða komið inn, munu þeir byrja að selja bíla, verður heimasíðan þeirra komin í gang? Þannig að það er svo fjölmargt sem Costco á eftir að gera sem við eigum eftir að sjá og þú þarft ekki annað en að rýna bara hvernig þeir eru að gera á öðrum mörkuðum til að sjá.“
Viðtalið í heild má sjá hér að neðan: